Skaðabótalög

Laugardaginn 06. mars 1999, kl. 11:23:32 (4363)

1999-03-06 11:23:32# 123. lþ. 79.5 fundur 183. mál: #A skaðabótalög# (margfeldisstuðull við bótaútreikning o.fl.) frv. 37/1999, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 123. lþ.

[11:23]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir síðustu orð framsögumanns minni hluta allshn. um þetta mál. Hann sagði að þegar á heildina er litið væri um að ræða brýnar úrbætur og brýnt að þær kæmust til framkvæmda. Undir það skal tekið vegna þess að í megindráttum er frv. afar mikilvægt og brýnt að það nái fram að ganga á þessu þingi. Frv. hefur reyndar verið um langt skeið til umfjöllunar í þinginu, ráðuneytum og ýmsum nefndum og hefur tekið nokkur ár að koma í höfn þeim brýnu úrbótum sem það kveður á um. Framsögumaður minni hluta gerði grein fyrir athugasemdum okkar. Þær eru einkum þríþættar. Í fyrsta lagi tökum við undir þær athugasemdir sem fram hafa komið hjá Landssamtökum lífeyrissjóða og ASÍ þess efnis að örorkulífeyrir frá lífeyrissjóðum eigi að leiða af sér lægri bætur frá tryggingafélögunum og eins það sem fólk fær úr sjúkrasjóðum, sem er brtt. frá meiri hluta nefndarinnar við frv.

Það sem fram kemur í ályktun stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða um þetta mál frá 23. febrúar er eftirfarandi, herra forseti:

,,Stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða átelur harðlega að með þessu er búin til enn ein tekjutengingin á lífeyrisgreiðslur lífeyrissjóðanna. Fram til þessa hafa stjórnvöld sparað almannatryggingum ómælda fjármuni með tekjutengingu bóta lífeyrissjóðanna við bætur Tryggingastofnunar. Nú á hins vegar einnig að spara tryggingafélögunum hluta af þeim kostnaði sem réttmæt hækkun skaðabóta hefur óhjákvæmilega í för með sér, verði frumvarpið afgreitt óbreytt.``

Segja má að athugasemdir sem fram hafa komið frá ASÍ séu í svipuðum dúr og þær eru vissulega réttmætar. Ég vil fara yfir tvö til þrjú atriði sem ASÍ hefur sett fram í gagnrýni sinni. Þar kemur fram að ASÍ mótmælir harðlega að launafólki sé hegnt fyrir samtryggingarsparnað sinn og að þeim sparnaði verði mismunað gagnvart öðrum sparnaði í samfélaginu sem ekki skerði rétt til skaðabóta.

Þeir segja réttilega að öll iðgjöld launafólks til samtryggingasjóða sinna séu hluti umsaminna launa og alfarið í eigu þess. Þeir telja að gagnrýni ASÍ hafi ekki verið svarað með neinum málefnalegum rökum heldur hafi aðeins verið bent á að þar sem þessi skerðing bitni einungis á þeim sem verða fyrir mestri örorku, 50% eða meira, þá sé það svo lítill hópur að ekki megi hindra framgang frv. hans vegna. Í sjálfu sér sé ekki um háar fjárhæðir að tefla. Í því samhengi segja þeir að þar sem um fáa einstaklinga sé að ræða í heildarsamhenginu ætti það að vera þeim mun auðsóttara mál að leiðrétta það.

Þau rök sem ASÍ teflir fram um að iðgjöld til lífeyrissjóðanna séu hluti umsaminna launa samkvæmt kjarasamningum og afrakstur af langri og harðri kjarabaráttu eru vissulega rétt og á vissulega að skoða. Það er rétt líka sem þeir halda fram að fyrir þessi iðgjöld hafi launafólk selt umtalsverðar launahækkanir í gegnum árin. Og orðrétt segja þeir, með leyfi forseta:

,,Þess vegna ber að meðhöndla réttindi í lífeyrissjóðum eins og hverjar aðrar þær tryggingar sem einstaklingar kaupa fyrir eigið fé en slíkar tryggingar koma ekki til lækkunar á skaðabótum.``

Þetta er auðvitað kjarni málsins. Tryggingar sem einstaklingar kaupa fyrir eigið fé úr hendi þriðja aðila koma ekki til lækkunar á skaðabótum, en aftur á móti koma greiðslur úr lífeyrissjóðum til lækkunar á skaðabótum og eins og ASÍ heldur fram þá eru þetta raunverulegar tryggingar sem launafólk hefur keypt sér þar sem um er að ræða hluta af kjarasamningum og launafólk þá kannski orðið að gefa eftir kjarabætur til að ná þessu fram.

Þeir segja um sjúkrasjóðina --- en meiri hlutinn ætlar að bæta um betur við 2. umr. og leggja líka til að greiðslur úr þeim sjóðum skerði skaðabæturnar --- að sjúkrasjóðirnir séu sama eðlis og lífeyrissjóðirnir, uppsöfnuð laun og eign launafólks.

Þeir hafa einnig sagt, með leyfi forseta:

,,Lífeyrisréttur í söfnunarsjóðum verkalýðshreyfingarinnar er oftar en ekki eini varanlegi sparnaður launafólks. Þeir sem betur mega sín og þeir sem fjárfest hafa í hlutabréfum í tryggingafélögum, olíufélögum eða hvað það nú er, sæta engum frádrætti vegna þessa sparnaðar en launafólki sem sparar í lífeyrissjóðum sínum skal hegnt fyrir sinn sparnað``.

Þetta eru rök sem ASÍ teflir fram.

Einnig segja þeir í samantekt sinni að þeir sem á undanförnum árum hafi greitt tiltekna upphæð til lífeyrissjóða búi við skertar eftirlaunagreiðslur hjá Tryggingastofnun ríkisins vegna tekjutengingar. Þeir sem ekkert hafi greitt í lífeyrissjóði fái hins vegar fullar bætur. Hér sé verið að hegna þeim sem sýnt hafi fyrirhyggju og látið hluta af launum sínum renna til lífeyrissjóða.

[11:30]

Þetta eru þau rök sem ASÍ hefur sett fram og samtök lífeyrissjóðanna taka undir og við sem skipum minni hluti allshn. í því máli sem hér er til umræðu, þ.e. frv. til laga um breyting á skaðabótalögum, teljum þessi rök vera réttmæt.

Alþýðusamband Íslands hefur nýlega sent öllum alþingismönnum bréf þar sem þeir styðja mál sitt gildum rökum og segja að meginregla frv., um að allar tryggingar sem keyptar eru af tjónþolum sjálfum skuli ekki koma til frádráttar skaðabótum, eigi einnig að taka til örorkulífeyrisréttinda launafólks og því eigi ekki að lögbinda lækkun skaðabóta vegna þeirra. ASÍ telur einnig að með þessum hætti sé verið að mismuna sparnaðarformum og hegna launafólki fyrir samtryggingarsparnað sinn í lífeyrissjóðum.

Herra forseti. Hér eru gild rök sett fram, þ.e. að verið er að mismuna í sparnaðarformi og hefði meiri hlutinn átt að taka tillit til þess.

Á síðari stigum þessa máls, eftir að allshn. hafði afgreitt málið úr nefndinni, gerði ASÍ mjög veigamiklar athugasemdir við útreikningana og taldi að ýmsir þyrftu að þola verulega lækkun á skaðabótunum frá því sem væri, og segja orðrétt í bréfi sínu, með leyfi forseta:

,,Í öðru lagi byggist afstaða ASÍ á þeirri staðreynd að nánast allir sem verða fyrir 50--100% varanlegri örorku muni þola lækkun skaðabóta frá því sem nú er, en það er sá hópur sem rétt á á örorkulífeyri frá lífeyrissjóðum. Um þetta hafa staðið nokkrar deilur enda hafa lærðir og leikir haldið því fram að með frv. yrðu bætur hækkaðar en ekki lækkaðar.

Upp úr miðjum febrúar sl. óskaði ASÍ eftir því við ritara allshn. að sambandinu yrðu sendir útreikningar tryggingafræðinga sem legið höfðu frammi í nefndinni frá 13. des. sl. Þar kemur fram að einstaklingar sem verða 100% öryrkjar í kjölfar slysa þurfi, ef frv. verði óbreytt að lögum, að þola allt að 15 millj. kr. lækkun skaðabóta og 50% öryrkjar allt að 7 millj. kr. lækkun. Allshn. hefur nú lagt til hækkun á margföldunarstuðli laganna og er það vel.

ASÍ hefur reiknað áhrif hækkunar stuðulsins út frá sömu forsendum og eru þeir útreikningar á fylgiskali I. Þar kemur fram að skaðabætur eru enn að lækka, um hátt á sjöundu milljón, og lækkunin kemur að meðaltali verst niður á þeim sem eru með tekjur undir 112 þús. kr. á mánuði fyrir bótaskylt slys.``

Herra forseti. Hér er því haldið fram að þrátt fyrir breytingar sem allshn. hefur lagt til á stuðlinum þá þurfi einhverjir, þó ekki sé það fjölmennur hópur, að þola ákveðna lækkun. Á þeim stutta tíma sem allshn. hafði til þess að fjalla um þessa hlið umsagnar ASÍ, sem kom alveg á síðustu stigum málsins, gafst ekki tími til að fara mjög ítarlega yfir þessar athugasemdir ASÍ sem vissulega eru nokkuð veigamiklar. Því verður að treysta því, herra forseti, þar sem mikilvægt er að frv. nái fram að ganga, að komi í ljós miklir annmarkar á þeim útreikningum sem hér eru lagðir fram á þessum nýja stuðli þá verði þeir leiðréttir. Við í minni hlutanum teljum þó ekki forsvaranlegt að tefja málið eða tefla því í tvísýnu á Alþingi þrátt fyrir þessar veigamiklu athugasemdir sem Alþýðusambandið gerir á þessum útreikningum. Þar sem ekki vannst tími til að fara ítarlega yfir þetta þá verður að treysta því að á því verði tekið ef í ljós koma miklir hnökrar á þessum útreikningi.

Eins og fram hefur komið felast verulegar bætur í frv. frá því sem eldri skaðabótalög kváðu á um. Ég vil í fyrsta lagi nefna að við útreikning bóta fyrir varanlega örorku verður notaður samþykktur margfeldisstuðull til 75 ára aldurs og að við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku verður miðað við fjárhagslegt örorkumat fyrir alla slasaða en ekki einungis fyrir þá sem nýta vinnugetu sína til þess að afla tekna. Einnig að tekin er upp lágmarksviðmiðun við útreikning bóta fyrir varanlega örorku en hámark viðmiðunarlauna verður óbreytt. Jafnframt er mikilvægt að reglum um frádrátt frá skaðabótum vegna varanlegrar örorku verður breytt þannig að tryggt sé að bótaréttur 70 ára og eldri vegna varanlegrar örorku verði aukinn.

Í frv. er svo heimild til að ákveða að álag á miskabætur verði rýkmað auk þess sem fellt verður niður ákvæði um að bætur greiðist ekki nái miskastig ekki 5%, og það tel ég mjög mikilvæga breytingu á lögunum.

Herra forseti. Ég skal ekki fara neitt ítarlega frekar yfir þetta mál. Það hefur verið gert af frsm. minni hluta. Hann hefur gert grein fyrir þeim breytingum sem við leggjum til á frv. Það er í megindráttum ein brtt. sem lýtur að frádrætti greiðslna úr lífeyrissjóðum frá skaðabótum og brtt. sem ég geri ráð fyrir að hv. 12. þm. Reykn., Kristín Halldórsdóttir, geri frekari grein fyrir. Sú tillaga er um að við mat á miskabótum vegna kynferðisofbeldis skuli sérstaklega taka tillit til eðlis verknaðarins, hve lengi misnorkunin varði, hvort verknaðurinn var misnotkun á skyldleikasambandi eða umönnunarsambandi, hvort brotaþoli hafi áður verið gerandi á einhvern hátt, hvort um misnotkun á trúnaðarsambandi var að ræða og hvort verknaðurinn hafi verið framinn á sérlega sársaukafullan eða ærumeiðandi hátt.

Eins og fram hefur komið hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni, leggjum við til að ekki verði miðað við 1.200 þús. kr. lágmarkslaun heldur verði miðað við meðllaun ASÍ varðandi útreikning bóta.

Herra forseti. Í lokin vil ég nefna það sem iðulega hefur verið nefnt þegar skaðabótalög hafa verið hér til umræðu, þ.e. hvort breytingar á skaðabótunum geti falið í sér að til þurfi að koma hækkun á iðgjöldum tryggingafélaganna. Þetta er sá þáttur sem ekki hefur tekist að fá útreikninga á þrátt fyrir að ítarlega hafi verið eftir því leitað, hvorki frá Vátryggingaeftirlitinu né tryggingafélögum. Ég minni á að á síðasta þingi fóru bæði hæstv. viðskrh. og hæstv. dómsmrh. í að reyna að knýja fram nauðsynlega útreikninga til að allshn. og þingmenn gætu gert sér grein fyrir því hvort þessar breytingar á skaðabótalögum hefðu áhrif á iðgjaldagreiðslur.

Herra forseti. Vissulega er það svo og það skal rækilega tekið fram, að það sem skiptir mestu máli er að verið er að tryggja betur réttindi tjónþola. Engu að síður finnst mér að þingið og allshn. þurfi að geta gert sér grein fyrir því hvort þessar breytingar hafi áhrif á iðgjöldin. Um það var mikið fjallað á síðasta þingi og einnig í allshn. þar sem fram komu mjög misvísandi upplýsingar frá tryggingafélögunum annars vegar og Vátryggingaeftirlitinu hins vegar, um áhrifin á tjónakostnaði bifreiðatrygginga vegna líkamstjóna. T.d. töldu tryggingafélögin að þær breytingar sem þá lágu fyrir mundu leiða til 50%, eða nálægt 50%, hækkunar á iðgjöldum. En Vátryggingaeftirlitið hélt því fram að ekki væri þörf á neinni verulegri hækkun á iðgjöldunum. Líka var deilt mikið um bótasjóði tryggingafélaganna og áætlað, að mig minnir, að um 11 milljarðar væru í bótasjóðum tryggingafélaganna. Þess vegna óskaði ég eftir því að fá upplýsingar um það hjá Fjármálaeftirlitinu hver staða bótasjóðanna væri núna og hvort þeir séu í stakk búnir til að mæta því ef þessar breytingar á skaðabótalögunum kölluðu á hækkun iðgjalda.

Í ljós kemur að bótasjóðirnir eru verulega digrir hjá tryggingafélögunum og ég verð að ætla, miðað við stöðu tryggingasjóðanna, að ekki þurfi að koma til nein hækkun á iðgjöldum á bifreiðatryggingum vegna breytinganna sem við erum hér að gera á skaðabótalögunum. Það kemur fram að 31. des. 1993 hafi staða bótasjóðanna verið 9,9 milljarðar kr. En núna, 31. des. 1997, er staða bótasjóðanna 15,8 milljarðar kr. og það þrátt fyrir að á þessum tíma, frá 1993--1997, hafi vátryggingaiðgjöld bílatrygginga fremur lækkað, sennilega um 20--30% vegna aukinnar samkeppni í tryggingageiranum. Eins var reikningstuðlinum breytt þannig að tjónakostnðaur var aukinn hjá tjónþolum. Í des. 1995 var reikningstuðlinum breytt úr 7,5 í 10. Þrátt fyrir þetta sýna bótasjóðirnir að þeir hafa hækkað úr tæpum 10 milljörðum frá 1993 og í tæpa 16 milljarða kr. í des. 1997.

Þetta vildi ég að kæmi fram við þessa umræðu. Við í minni hlutanum gerum grein fyrir því í áliti okkar hvernig á þessu máli hefur verið haldið og teljum fyrir neðan allar hellur að löggjafarsamkundan geti ekki fengið eðlilegar upplýsingar frá tryggingafélögunum í þessu máli en vísum til þess, með tilliti til stöðu bótasjóðanna sem ég hef lýst að eru verulega digrir, að ekki þurfi að koma til hækkunar á iðgjöldum. Við leggjum áherslu á að Fjármálaeftirlitið, sé þess þörf, beiti ákvæðum 2. mgr. 55. gr. laganna um Vátryggingaeftirlit, sem kveða á um að eftirlitið geti með rökstuddum hætti gert athugasemdir ef iðgjöld eru ósanngjörn og ekki í samræmi við áhættu sem í vátryggingunum felst, vilji svo ólíklega til, herra forseti, að tryggingafélögin ætli að hækka iðgjöld í ljósi þeirra breytinga sem við erum að leggja til á skaðabótalögunum. Það er auðvitað ekki líðandi.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu. Við leggjum fram brtt. sem við höfum lýst og væntum þess að þær fái stuðning á hv. Alþingi. Að öðru leyti vil ég ítreka það að hér er á ferðinni mjög gott mál sem við munum styðja.