Frumvarp um stjórn fiskveiða, 571. mál

Mánudaginn 08. mars 1999, kl. 12:48:30 (4429)

1999-03-08 12:48:30# 123. lþ. 80.95 fundur 332#B frumvarp um stjórn fiskveiða, 571. mál# (um fundarstjórn), SighB
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 123. lþ.

[12:48]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Eins og kunnugt er á landvinnslan nú við mikla erfiðleika að etja og er verið að segja upp tugum fólks vegna hráefnisskorts. Sá hráefnisskortur er m.a. vegna þess að nær engar aflaheimildir eru til leigu á markaði og þær litlu aflaheimildir sem eru til leigu seljast fyrir óhemjuverð. Strandveiðiflotinn er að hrynja, herra forseti, og landvinnslan þar með líka.

Ég lagði fram á þskj. 937, ásamt hv. þm. Lúðvík Bergvinssyni, frv. til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða sem er ætlað að taka á þessum erfiðu málum. Þetta er eina tillagan sem liggur fyrir þinginu þar sem gert er ráð fyrir því að tekið sé á þessum málum.

Nú tek ég eftir því að þetta frv. er ekki á dagskrá í dag og hefur ekki verið á dagskrá síðan það var lagt fram í síðustu viku. Ég vil því spyrja forseta að því hvort ekki sé von til þess að frv. fáist tekið á dagskrá, helst í dag en ef það er ekki unnt, þá alltént á morgun. Því eins og virðulegi forseti veit er örvæntingarástand strandveiðiflotans orðið slíkt að hætta er á að fáist Alþingi ekki til að taka á því vandamáli grípi menn til örþrifaráða.