Skipulags- og byggingarlög

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 16:22:18 (4718)

1999-03-10 16:22:18# 123. lþ. 83.45 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv. 58/1999, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[16:22]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessar undirtektir Hjörleifs Guttormssonar og met þær.

Virðulegi forseti. Aðalskipulag hér er veikt. Neðra stjórnvald ræður öllu sem það vill innan þess ramma sem efra stjórnvald setur. Efra stjórnvald hefur ekki sett ramma fyrir höfuðborgarsvæðið. Ég nefndi það sem dæmi áðan og reyndi að draga það inn svo menn kæmust út úr hatursumræðunni milli þéttbýlis og dreifbýlis. Það er ekki til grundvallarrammi, ekki fyrir höfuðborgarsvæðið, ekki fyrir miðhálendið. Þetta eru staðreyndirnar og það hafa komið mjög loðin svör um miðhálendið og vinnan við verkefni sem átti að ljúka 1996, ef ég man rétt, hefur verið sérkennileg.

Við stöndum frammi fyrir því sem ég var að reyna að draga saman hér áðan, að verkefnið um miðhálendið var sett í gang án þess að stefna Alþingis lægi fyrir. Það var engin stefnumótun ofan frá og það er grundvallaratriði hjá okkur. Við erum ekki bara að segja það. Ef menn ómaka sig til að tala við sérfræðinga þá segja þeir hið sama.

Það skiptir ekki öllu máli hver eigi landið, af því að komið hefur verið inn á það, heldur hver hafi skipulagsvaldið. Við vitum að aðalskipulagið og deiliskipulagið er mikilvægast og svæðisskipulagið yfirtekur það ekki. Þetta er grundvallaratriði.

Ef við lítum á svæðisskipulagið þá er þar kannski stærsta vandamálið. Það er vegna þess að það var aðeins boðið upp á einn kost. Það var unnið svæðisskipulag. Það var kosturinn. Það var ekki boðið upp á fleiri kosti og reynt að skilgreina afleiðingar og áhrif, hvað þá heldur að búið væri að vinna þetta skipulag út frá forsendum sem ríkisvaldið og Alþingi settu.

Þetta er vandinn. Ég vil vinna þetta öðruvísi og ég vildi óska þess að þetta mál væri ekki afgreitt í dag og að nýr ráðherra og helst ný ríkisstjórn tækist á við þetta verkefni. Það er stórt. Það er spennandi og skapandi.