Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 21:20:36 (4770)

1999-03-10 21:20:36# 123. lþ. 84.13 fundur 252. mál: #A happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna# (peningavinningar) frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[21:20]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að teygja lopann með langri umfjöllun hér um þetta mál. Ég vil þó aðeins vekja athygli á því að hv. allshn. gerir það að nokkru máli í nál. sínu um einkaleyfi Happdrætti Háskóla Íslands og segir:

,,... en þar sem Happdrætti Háskóla Íslands hefur nú einkarétt á peningahappdrætti samkvæmt lögum nr. 13/1973, með síðari breytingum, telur nefndin ekki unnt að leggja til að þau verði samþykkt.``

Ég þykist þó vita að nefndin viti betur því að í skjóli einkaleyfis Happdrættis Háskóla Íslands hefur happdrættisflóran heldur betur dafnað og vaxið. Peningahappdrættum hefur fjölgað mjög frá 1973 og er nú svo komið að heildarvelta happdrættismarkaðarins hér á landi er 16 milljarðar og eru Happdrætti SÍBS og DAS með um 5% af heildarveltunni.

Það merkilega við þessa auknu veltu happdrættanna er að ný happdrætti hafa komið á markaðinn og greiða út í peningum, t.d. Talnagetraunir, Getspá, Víkingalottó, Sjóðsvélar o.fl. og allt er þetta þó undir þeim lögum að háskólinn hefur einkaleyfi á peningahappdrætti. Svo ekki er nema von að nokkurri undrun sæti hjá þeim þingmanni sem hér stendur að þetta skuli verða orðatiltæki nefndarinnar og vitnað til einkaleyfis Happdrættis Háskóla Íslands.

En með tilliti til þess --- ég viðurkenni að þetta frv. til laga um breytingu á lögum um happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna var lagt fram nokkuð seint, og í ljósi þröngs tíma sem þingið hefur ætla ég ekki að hafa frekari orð um þetta mál en vænti þess að hæstv. ríkisstjórn taki málið til gaumgæfilegrar athugunar.

Einnig vil ég benda á, þegar verið er að tala um að eðlilegt sé að sett verði heildarlög um happdrætti, að þetta mál hefur verið í skoðun í mörg ár. Það er ekki langt síðan nefndarálit kom frá ágætri nefnd sem hefur fjallað um þessi mál. Þessi happdrætti, t.d. SÍBS, hafa stuðlað að framgangi mörg þúsund aðila sem hafa farið á Reykjalund, og stuðlað að því að þeir sem hafa lent í slysum eða alvarlegum veikindum komist aftur inn á vinnumarkaðinn.

Innan skjólstæðinga Happdrættis DAS eru nú 700 aldraðir og ég óttast að ef ekki verður á allra næstu mánuðum gripið til þeirra ráða að Happdrætti DAS og SÍBS fái leyfi til að reka peningahappdrætti í skjóli laga um einkaleyfi Háskóla Íslands á peningahappdrættum --- eins og Víkingalottó, Talnagetraunir, Getspá, Sjóðsvélar og hvað þetta allt heitir, sem veltir um 16 milljörðum á ári, þá hlýtur það að koma á ríkið og skattborgarana að bregðast við og taka við því mikla hlutverki sem SÍBS og Dvalarheimili aldraðra sjómanna hafa stuðlað að fram til þessa.