Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 22:27:22 (4790)

1999-03-10 22:27:22# 123. lþ. 84.21 fundur 521. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (úrskurðarnefnd o.fl.) frv. 60/1999, Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[22:27]

Frsm. meiri hluta (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki rétt að þessar ferðir hafi verið aflagðar 1996. Hins vegar hefur siglinganefnd verið með þessi mál síðan. Samkvæmt upplýsingum mínum kom engin umsókn þangað inn 1997. Að vísu hef ég upplýsingar frá Spoex um að a.m.k. ein umsókn hafi þá verið send inn sem ég átta mig ekki á hvert fór fyrst siglinganefnd telur að hún hafi ekki komið þangað.

En það er alveg rétt sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir er að benda hér á að það hafa verið vandræði vegna þess að menn hafa ekki pantað pláss fyrir fram þegar siglinganefndin ákveður svo að samþykkja umsóknir, t.d. sex núna fyrir stuttu. En mér skilst að nú sé búið að reyna að leysa úr því með þeim hætti að þetta fólk búi á hóteli, þ.e. ekki á sjálfri meðferðarstöðinni en fari á meðferðarstöðina og verði þar í meðferð á daginn og fari svo til baka á hótelið. Það er leyst með einhverjum slíkum hætti.

En mér finnst mjög æskilegt að siglinganefndin skoði þessi mál til hlítar af því að að sjálfsögðu er mjög óþægilegt þegar loksins kemur jákvætt svar að fólk geti þá ekki farið á meðferðarstöðina. Þetta er atriði sem við getum ekki tekið á í lagatexta en siglinganefnd verður að skoða sínar reglur þannig að þessi þjónusta geti verið eins góð og hægt er.