Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 22:40:41 (4792)

1999-03-10 22:40:41# 123. lþ. 84.21 fundur 521. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (úrskurðarnefnd o.fl.) frv. 60/1999, Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[22:40]

Frsm. meiri hluta (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef ég hef gefið í skyn að þetta væri ,,kannski réttlætanlegt`` þá vil ég leiðrétta sérstaklega. Í einhverjum tilvikum er örugglega réttlætanlegt að senda psoriasissjúklinga út. Kremin eru mjög dýr þannig að það er örugglega peningalega réttlætanlegt. En maður á ekki alltaf að hugsa í peningum, það getur líka verið réttlætanlegt upp á betri líðan þessa fólks. Ég vil að það komi skýrt fram að þetta megi ekki bara skoða í aurum og krónum.

Það er alls ekki rétt að meðferðin hafi verið aflögð. Hjá síðasta ræðumanni kom fram að hún hefði nánast verið aflögð og ég þakka fyrir að menn viðurkenni þær staðreyndir. Samtök psoriasis- og exemsjúklinga telja hins vegar að meðferðin hafi verið aflögð, sem er ekki rétt. Framfarirnar hafa orðið svo miklar eins og ég benti hér á, bæði í lyfjameðferðinni og með tilkomu Bláa lónsins. Þangað eru t.d. að koma Þjóðverjar og Færeyingar að leita sér lækninga. Bláa lónið á ekki við alla en það á við marga, a.m.k. einhverja, ég veit ekki hve marga. En einhverjir verða að fara út.

Ég vil nota tækifærið hér, virðulegur forseti, til að spyrja aðeins út í atriði í áliti minni hlutans. Af hverju er einungis Landssamband aldraðra og Öryrkjabandalagið tekið inn, fyrst nú á að taka inn hagsmunahópa? Þetta eru alls ekki allir skjólstæðingar Tryggingastofnunar. Mér finnst því mjög skrýtið að taka þá þarna inn og er ekki tilbúin að samþykkja það.

Síðan er það hækkunin á lífeyrinum. Ég vil spyrja hv. þm. hvað það kostar að hækka um 10 þús. kr. flatt? Væri ekki eðlilegra að hækka þá frekar þá sem lægstir eru? Hér á að hækka flatt á alla og ég vil spyrja: Hvað á þetta að kosta? Eru það margir milljarðar?