1999-03-11 00:29:05# 123. lþ. 84.26 fundur 509. mál: #A Háskóli Íslands# (heildarlög) frv. 41/1999, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[24:29]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Hér hafa orðið nokkuð einkennileg orðaskipti en að gefnu tilefni vil ég taka skýrt fram þar sem nafn mitt er undir nál. að í fyrsta lagi fagna ég því meginmarkmiði með frv. sem er að efla sjálfstæði Háskóla Íslands og ég tel að það einkenni þetta frv. að öllu leyti. Sú sátt sem náðist um 18. gr. og hefur verið gerð sérstaklega að umtalsefni felur einmitt í sér, er í anda þessa sjálfstæðis, þar sem talað er um samtök í 18. gr., heimild háskólaráðs til þess að semja við stúdenta, samtök þeirra eða félög. Þar með er annars vegar búið að vísa til þess sem var ágreiningsmál áður að stúdentaráði var gefinn sami status og hverju öðru félagi innan háskólans en jafnframt, og ég tel það vera afskaplega mikils virði sem kom fram í ræðu hv. formanns menntmn. og kemur fram einmitt í nál., að gert er ráð fyrir því að stúdentaráð Háskóla Íslands gegni því hlutverki sem það hefur gegnt og það hefur einnig komið fram í síðari ræðu hæstv. menntmrh. Ég tel að þar með sé í raun búið að ná viðunandi sátt um málið og það er það sem skiptir meginmáli í þessu öllu saman.

Ég tel rétt að taka þetta skýrt fram en jafnframt undrast ég að fulltrúar hv. stjórnarandstöðu skuli ekki geta glaðst með stúdentum, eins og hefur komið skýrt fram að stúdentar gleðjast yfir breytingum varðandi Lánasjóð ísl. námsmanna, og ég tel óþarfa að vera að blása upp einhverju moldviðri um það, frekar að taka þátt í gleði með stúdentum yfir því.