1999-03-11 02:36:08# 123. lþ. 84.94 fundur 352#B framhald þingfundar# (um fundarstjórn), RG
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[26:36]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég hef nú nokkrum sinnum minnt á það hér úr þessum ræðustól að það er til eitthvað sem heitir vinnuvernd og vinnutímalöggjöf og við höfum nú þegar verið í 16 tíma lotu. Það er því ankannalegt að Alþingi Íslendinga sé að setja lög sem það virðir ekki sjálft. Ég spyr hvers vegna forseti nefni þrjú mál á dagskrá fundarins. Er búið að taka eitthvað út? Ég get ekki skilið hvaða ástæða er fyrir því ef þrjú mál eru eftir að geta ekki tekið þau á morgun þegar fólk er frískt og hefur náð að fara heim og hvíla sig og staðið við þær vinnutímalagasetningar sem Alþingi sjálft hefur sett. Er ekki skynsamlegra að halda þannig á fundarstjórn? Það má vel vera að fyrirhugað hafi verið þegar forseti, Ólafur G. Einarsson, yfirgaf þingið kl. tíu til hálfellefu í kvöld að ljúka þessu, en nú er klukkan orðin hálfþrjú. Og ég spyr, ef einhver veruleg umræða verður um þessi mál, t.d. um hið stóra mál um náttúruvernd, eigum við þá bara að vera hérna til fimm í fyrramálið þótt búið sé að boða fund í fyrramálið kl.10? Þetta eru auðvitað engin vinnubrögð, herra forseti, og ég óska eftir því að forseti endurskoði afstöðu sína.