Loftskeytastöð á Siglufirði

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 16:11:17 (891)

1998-11-04 16:11:17# 123. lþ. 20.5 fundur 129. mál: #A loftskeytastöð á Siglufirði# fsp. (til munnl.) frá samgrh., 137. mál: #A loftskeytastöðin á Siglufirði# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[16:11]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Jónsson):

Herra forseti. Ég fagna orðum og yfirlýsingu hæstv. samgrh. þess efnis að nota tímann --- sem er reyndar lengri en menn bjuggust við --- þangað til stöðinni verður lokað á Siglufirði til þess að finna verkefni sem eðlilegt væri að færa til Siglufjarðar þannig að þar haldist í það minnsta sambærileg og jafnmörg störf eða fleiri. Einnig tek ég undir orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sem sagði að auðvitað væri eðlilegt að nýta eitthvað af þeim sparnaði sem felst í því að ný tækni þjappar þessu saman, þ.e. að nota þá fjármuni til þess að huga að atvinnuuppbyggingu á Siglufirði. Það leist mér afar vel á og tek undir það.

Þessi nýja tækni sem hefur komið til sögunnar og hér hefur verið gerð að umtalsefni gerir okkur auðveldara að byggja allt landið. Fjarlægðir verða afstæðar með nýjum búnaði, nýr tími og ný hugsun þarf líka að fylgja í kjölfarið. Það er auðvelt að hafa hluta af stofnunum, deildir stofnana, fjarri aðalstöðvunum eða miðstöðinni, í jafngóðum tengslum við allt þjónustusvæðið. Þetta þekkja þeir líka á Landssímanum, mér er kunnugt um það. Verkefnum er einfaldlega skipt á milli landsvæða.

Margt fleira getur verið á döfinni þegar menn hafa varpað af sér fjötrum gamla hugsunarháttarins. Tillögurnar í stefnumótandi byggðaáætlun hæstv. forsrh. bera vott um að stjórnvöld séu tilbúin að nýta hina nýju tækni til að forða landsmönnum frá því að hrúgast allir á sama landsvæðið og þess þarf auðvitað að sjá stað í ákvörðunum. Hindranirnar sem eru á því að við nýtum þessa þróun til að efla landsbyggðina eru fyrst og fremst huglægar. Þetta er eins og gamla sagan um að styttra sé frá Siglufirði til Reykjavíkur heldur en frá Reykjavík til Siglufjarðar, en ýmsir telja svo vera. Þannig hafa menn ekki fyllilega áttað sig á því að merkið eftir ljósleiðaranum á alveg jafnauðvelda leið hvora áttina sem farið er.

Herra forseti. Tækninni á að beita með landsbyggðinni en ekki gegn henni. Tæknin dregur ekki úr gildi Siglufjarðar og stöðvarinnar þar fyrir Landssímann.