Áhrif af Schengen-aðild á ferðaþjónustu

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 16:30:31 (899)

1998-11-04 16:30:31# 123. lþ. 20.8 fundur 155. mál: #A áhrif af Schengen-aðild á ferðaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[16:30]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég tel rétt að rifja aðeins upp hver helstu markmið aukinnar Evrópusamvinnu eru. Í fyrsta lagi eru það pólitísk markmið um aukna samvinnu milli þjóðanna til að draga úr hættunni á átökum þeirra í millum. Hins vegar býr að baki sú fullvissa að aukin samvinna þjóðanna og það að draga úr eftirliti á landamærum muni leiða til aukinnar efnahagslegrar velmegunar. Það er talið draga úr kostnaði atvinnulífsins og gera það að verkum að meira sé þá til skiptanna og það muni auka þjóðarframleiðsluna í viðkomandi ríkjum. Hin svokallaða Cecchini-skýrsla, sem mig minnir að hafi heitið svo, leitaðist við að sýna fram á að með því að gera Evrópu að einum markaði þá mætti draga svo úr kostnaði að þjóðarframleiðslan í Evrópu ykist um tiltekin prósent á ári hverju, vegna þess að kostnaðurinn minnkaði og eftirlit minnkaði sömuleiðis.

Þetta þurfum við að hafa í huga þegar við ræðum um hugsanlega Schengen-aðild. Hluti af þessu dæmi öllu saman er spurningin um hvort aðildin að Schengen muni í raun og veru draga úr tilkostnaði í atvinnulífinu og þá alveg sérstaklega ferðaþjónustuna. Eins og málin standa nú varðandi Schengen þá eru markmiðin óskýr og ávinningurinn líka óljós. Þess vegna er það mjög mikilvægt áður en gengið er til þessa samstarfs að slíkar upplýsingar liggi fyrir. Hvað áhrif mundi hugsanleg aðild okkar að Schengen hafa á efnahagslífið í landinu og samkeppnisstöðu einstakra atvinnugreina. Mun þetta draga úr kostnaði? Mun þetta bæta stöðu t.d. ferðþjónustunnar eða mun þetta hafa þveröfug áhrif?

Þetta eru enn þá áleitnari spurningar í ljósi þess að Schengen-málið er komið í allt annan farveg en fyrir örfáum árum síðan. Með Amsterdam-samkomulaginu svonefnda var Schengen fært undir fyrstu stoð Evrópusambandsins og varð þar með hluti af hinu yfirþjóðlega valdi Evrópusambandsins líkt og aðrir þættir í því samstarfi, hvort sem við erum að tala um landbúnaðarstefnuna eða annað. Þess vegna þurfa hinar efnahagslegu hliðar þessa máls að vera okkur betur ljósar. Það yrði mjög afdrifarík ákvörðun sem við tækjum með að samþykkja aðild að Schengen.

Þess vegna hef ég leyft mér, á þskj. 155, að leggja eftirfarandi fsp. fyrir hæstv. samgrh.:

,,Hefur farið fram úttekt á áhrifum þess á ferðaþjónustuna í landinu að Íslendingar gerist aðilar að svonefndu Schengen-samkomulagi?``