Vegabréf

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 15:30:00 (1983)

1998-12-10 15:30:00# 123. lþ. 37.5 fundur 231. mál: #A vegabréf# (heildarlög) frv. 136/1998, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[15:30]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð um frv. til laga um vegabréf sem gerir ráð fyrir breytingum sem almennt séð eru til bóta. Eins og fram kom í máli frsm. allshn. hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur er verið að endurskoða lög sem eru komin til ára sinna. Það litla atriði sem mig langaði til að vekja athygli á er reglugerð sem byggir á þessum lögum. Hún er að vísu ekki komin til ára sinna því hún er frá árinu 1994. En hún er eldri í andanum. Í þessari reglugerð sem byggir á 1. gr. laganna um vegabréf er kveðið á um svokölluð diplómatísk vegabréf, rauðu passana. Og hverjir skyldu hafa þessa rauðu passa? Jú, það er forsetinn og það eru fyrrverandi forsetar og nánustu fylgdarmenn forseta, ráðherrar, forsetar Alþingis, hæstaréttardómarar, ríkissaksóknarar, umboðsmaður Alþingis, embættismenn utanríkisþjónustunnar, ráðuneytisstjórar, ríkisendurskoðandi, ríkissáttasemjari, biskupinn yfir Íslandi, aðalbankastjórar Seðlabankans, þeir sem gegna meiri háttar trúnaðarstörfum fyrir Ísland í fjölþjóðlegum ríkjasamtökum, fyrrv. forsrh. og utanrrh., fyrrverandi starfsmenn utanríkisþjónustunnar og makar og börn þeirra sem taldir eru hér að framan. Með öðrum orðum, börn fyrrverandi ráðherra. Minnir þetta ekki pínulítið á ríki sem var að líða undir lok núna um síðustu áratugaskipti, (Gripið fram í.) í kringum 1990? Það var kallað framan úr sal að menn vildu fá vegabréf af þessu tagi. Þingmenn hafa rétt á svokölluðum þjónustuvegabréfum. Það eru ekki rauðir passar heldur grænir. (Gripið fram í: Nú?) Þeir eru fyrir alþingismenn, skrifstofustjóra í Stjórnarráði Íslands, forstjóra helstu ríkisstofnana, skrifstofustjóra Alþingis, hæstarréttardómara, aðstoðarmenn ráðherra, starfsfólk utanríkisþjónustunnar sem ekki er talið upp að framan, borgarstjórann í Reykjavík, forseta borgarstjórnar Reykjavíkur, þá sem ferðast í opinberum erindum ríkisstjórnarinnar, fulltrúa Íslands í stjórn á þingum eða í starfsliði fjölþjóðlegra ríkjasamtaka og þá sem ferðast í erindum meiri háttar viðskiptasamtaka þegar sérstaklega stendur á, fyrrverandi ráðherra, fyrrverandi hæstaréttardómara, fyrrverandi ráðuneytisstjóra, fyrrverandi aðalbankastjóra Seðlabanka Íslands, þá sem gegnt hafa meiri háttar trúnaðarstörfum í fjölþjóðlegum ríkjasamtökum, maka og börn þeirra sem taldir eru að framan. Með öðrum orðum, maka og börn fyrrverandi ráðuneytisstjóra, fyrrverandi hæstaréttardómara, fyrrverandi ráðherra, fyrrverandi borgarstjóra, fyrrverandi forseta borgarstjórna og fyrrverandi alþingismanna.

Ég velti fyrir mér hvort ekki sé ástæða til að endurskoða þessa reglugerð, ekki síður en lögin því hún byggir náttúrlega ekki á neinni nauðsyn, en hún byggir á hugmynd eða hugmyndafræði um stéttskipt þjóðfélag og forréttindahópa og á náttúrlega ekki að vera við lýði. Ég hvet því til þess að reglugerðin verði tekin til endurskoðunar og færð nær hugmyndum sem ganga í samtímanum.