Lífeyrissjóður bænda

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 19:10:41 (2060)

1998-12-10 19:10:41# 123. lþ. 37.9 fundur 323. mál: #A Lífeyrissjóður bænda# (heildarlög) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[19:10]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Í dag starfa þrír sjóðir samkvæmt lögum en án ábyrgðar þriðja aðila. Eingöngu sjóðfélagar bera ábyrgð á sjóðunum með iðgjöldum sínum og enginn annar. Tveir af þessum sjóðum, þ.e. Lífeyrissjóður bænda og Lífeyrissjóður sjómanna eiga sér sjálfsagða aðstandendur, þ.e. stéttarfélög bænda og stéttarfélög sjómanna. Einn sjóðanna, Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda, sem við þegar höfum afgreitt til 3. umr. á sér ekki sjálfsagða aðstandendur.

Herra forseti. Mjög ítarleg lög hafa verið sett í landinu um lífeyrissjóði og starfsemi þeirra. Ég vil velta þeirri spurningu upp og beini henni til þeirrar nefndar sem fær málið til skoðunar hvort ekki sé hægt að fella lögin um Lífeyrissjóð bænda úr gildi og sömuleiðis lögin um Lífeyrissjóð sjómanna þannig að þessir sjóðir starfi eins og aðrir sjóðir á vegum stéttarfélaga. Ég sé enga þörf á því að hafa sérstaka löggjöf um þessa sjóði.

Herra forseti. Ég hef ítrekað bent á að ákvæði vanti í lífeyrissjóðina um það hver eigi þá. Ég tel að sjóðfélagarnir eigi þá. Til þess sjóðs sem við tölum um, Lífeyrissjóðs bænda, greiðir bændastéttin, sem hefur orðið fyrir miklum hremmingum undanfarna áratugi. Sennilega hefur engin stétt í landinu orðið fyrir þvílíkum hremmingum og bændur landsins. Er svo komið að ég tel að ef hægt er að tala um fátækt hjá einhverri stétt, þá er það hjá bændum þar sem búin hafa verið skert aftur og aftur og þeir bændur sem ekki eiga undankomuleið í aðra vinnu í nágrenninu hafa orðið mjög illa úti vegna þessara skerðinga. Þeir geta í rauninni hvorki hætt né haldið áfram og ganga stöðugt á eignir sínar. Reyndar hefur staða þeirra lagast nokkuð.

Þessir bændur eiga stórar hallir í Reykjavík sameiginlega, þ.e. Hótel Sögu, þessir bændur eiga mjólkursamlögin sem eru feiknalega rík, t.d. Mjólkursamsöluna í Reykjavík, sem er væntanlega í eigu, að mínu mati, sunnlenskra bænda, mjólkurbænda, er með eigið fé upp á 2.000 millj. en bændurnir komast ekkert að þessu eigin fé. Þessar hallir bænda í Reykjavík eru klæddar palisander og marmara en bændurnir lifa við allt önnur kjör. En þeir eru samt eigendurnir en komast ekki að þeim eignum sínum. Þetta finnst mér mjög brýnt að fara að laga þannig að bændur komist að sínum eignum. Að mjólkurbændur á Suðurlandi, sem sumir hverjir búa við mjög lök kjör, komist að þessum 2.000 millj. sem eru geymdar hjá Mjólkursamsölunni í Reykjavík. (ÖJ: Og visti þær hjá Kaupþingi.) Það verður örugglega betra fyrir bændur að vista þær hjá Kaupþingi en hjá Mjólkursamsölunni, hv. þm.

Herra forseti. Ég hef enn fremur í sambandi við lífeyrissjóðina nefnt skipun stjórnar, þ.e. hver fer með ráðstöfun og ávöxtun þess fjár sem sjóðfélagarnir, í þessu tilfelli bændur, hafa lagt til hliðar til þess að tryggja sig í ellinni. Það skiptir verulegu máli fyrir þetta fólk hvernig ávöxtun þessa fjár er háttað og við þekkjum dæmi þess einmitt hjá þessum sjóði að því miður hafi misbrestur orðið þar á.

Í frv. er gert ráð fyrir að stjórnin verði skipuð fimm mönnum sem eiga að vaka yfir hagsmunum sjóðfélaganna í ellinni. Hvaða tengsl skyldu þessir fimm menn hafa við bændur? Einn þeirra skal tilnefndur af Hæstarétti. Látum okkur nú sjá. Hvaða tengsl hefur Hæstiréttur við bændastéttina í landinu? Ég get ekki séð það, ómögulega. Og hann skal vera formaður stjórnarinnar. Einn skal tilnefndur af landbrh. Jú, stjórnsýslan getur hugsanlega haft hönd í bagga með hvernig fé bænda er ávaxtað. Tveir skulu tilnefndir af stjórn Bændasamtaka Íslands, þ.e. tveir af fimm, sem sumir mundu telja að gæti hagsmuna bænda. Það er eina beina tengingin sem bændur eiga inn í þennan lífeyrissjóð samkvæmt þessum hugmyndum. Hins vegar hef ég margoft bent á að lýðræðið hjá stéttarfélögum og þar með Bændasamtökunum er ákaflega fábrotið og ákaflega lélegt þannig að áhrif einstakra bænda á þessa stjórn munu ekki verða nein. Ég fullyrði það. Jafnvel þessir tveir fulltrúar sem tilnefndir eru af bændasamtökunum munu ekki að mínu mati vera beinir fulltrúar sjóðfélaganna. Svo skal einn skipaður án tilnefningar og það er fjmrh. sem ræður honum og ég hef ekki séð tengsl fjmrh. við bændur nema að hann innheimtir af þeim skatt. Það eru einu tengslin sem hann hefur við þá og ég get ekki séð að þar verði gætt þess aga og hagsmuna sem sjóðfélaginn hefur af því að þetta fjármagn sé vel ávaxtað.

Herra forseti. Ég mun leggja til þegar þetta mál kemur til umfjöllunar hjá hv. efh.- og viðskn. að nákvæmlega verði sagt hver eigi þá milljarða sem geymdir eru hjá Lífeyrissjóði bænda. Það eru bændur sjálfir. Ég get ekki séð nokkurn einasta annan aðila eiga það fé. Þetta fé stendur að baki þeim tryggingum sem sjóðurinn er að lofa. Ég mun sömuleiðis leggja til að bændur kjósi stjórn sjóðsins. Ég treysti bændum fullkomlega sem fullveðja einstaklingum til að fara með sín mál. Mér finnst það ótrúleg vanvirðing við bændur að treysta þeim ekki til að sjá um sín fjármál sjálfir. Ég geri ráð fyrir því að bændur geti kosið stjórn Lífeyrissjóðs bænda með nákvæmlega jafnmiklum skörungsskap og þeir reka bú sín. Ég mun því gera tillögu um það að stjórn sjóðsins, þ.e. þeir aðilar sem koma til með að fara með þessa eign bænda, ávaxta hana og tryggja þannig að hún blómstri og standi undir þeim lífeyri sem þeir þurfa á að halda í ellinni, verði kosin beint af sjóðfélögunum, þ.e. bændum.