Landhelgisgæsla Íslands

Fimmtudaginn 17. desember 1998, kl. 12:42:58 (2498)

1998-12-17 12:42:58# 123. lþ. 44.18 fundur 233. mál: #A Landhelgisgæsla Íslands# (útboð) frv. 142/1998, Frsm. SP
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 123. lþ.

[12:42]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að þakka hv. þm. fyrir umræðuna og stuðning þeirra við málið. Engu að síður þykir mér rétt að koma með nokkra punkta til viðbótar varðandi það frv. sem hér er til umræðu til frekari upplýsinga.

Í fyrsta lagi er það ítrekað að þau verkefni sem viðkomandi stjórnvöld skilgreina sem hluta af öryggiskerfi eða öryggishagsmunum ríkisins falla þar með undir undanþágu EES-samningsins og tilskipun 93/36/EBE. Legg ég áherslu á að hvergi í þessum reglum er talað um hernaðarmálefni heldur einungis um öryggishagsmuni og hljóta allar þjóðir að hafa slíka grundvallarhagsmuni sem þeim ber að verja án tillits til þess hvort þær hafa her eða ekki.

Í öðru lagi er talað um að íslenska ríkið gæti fengið á sig skaðabótakröfur ef verkið verður ekki boðið út á Evrópska efnahagssvæðinu. Bárust nefndinni upplýsingar um að möguleiki væri á því að kæra yrði borin upp við ESA sem tæki málið upp. Ef svo vildi til að Eftirlitsstofnunin kæmist að því að útboðsskylda hefði verið fyrir hendi og að íslensk stjórnvöld hefðu brotið EES-reglur er líklegast að ríkið mundi fá ávítur, en telja verður mjög ólíklegt að um fjárhagslegar eða annars konar refsiaðgerðir yrði að ræða frá öðrum EES-ríkjum.

Einnig hefur verið minnst á það að einstök fyrirtæki á Evrópska efnahagssvæðinu gætu gert kröfu um skaðabætur. Slík fyrirtæki yrðu þá að sýna fram á tjón og verður að telja slíkt ólíklegt þar sem fyrirtækjunum er ómögulegt að sýna fram á að þau hefðu fengið verkið ef til útboðs hefði komið.

Í þriðja lagi hefur verið rætt um að með þessu gætu Íslendingar kallað yfir sig hefndarráðstafanir sem kæmu niður á útflutningi frá Íslandi til EES-svæðisins. Slíkt verður að teljast afar ólíklegt og hafa dæmi sýnt að menn einbeita sér að hagsmunagæslu sem snertir þá beint.

Í fjórða lagi hefur nokkuð verið rætt um það hvort íslensk fyrirtæki séu samkeppnisfær um verð og gæði. Samkvæmt upplýsingum sem nefndinni bárust um málið er ljóst að þó að samið yrði við einn aðila innan lands um framkvæmd verksins yrðu einstakir hlutar þess boðnir út til undirverktaka eða framleiðenda. Á slíkt bæði við um vélar, tæki og einstaka smíðahluta, svo sem skipsskrokkinn. Þetta fyrirkomulag á að tryggja að fyllsta hagræðis verði gætt.

Virðulegi forseti. Mér þótt rétt að láta þessa punkta koma fram vegna þess að um þetta var rætt sérstaklega við meðferð málsins í hv. allshn.

Að lokum vil ég vísa til minnispunkta sem bárust nefndini frá Samtökum iðnaðarins þar sem þeir veltu upp þeirri spurningu hvort lagasetning styrki málið. Svarið er tvímælalaust játandi, segja þeir. Með leyfi virðulegs forseta, vil ég fá að lesa upp eftirfarandi:

,,Svarið er tvímælalaust játandi. Það mat ráðherra að þessi lagasetning sé nauðsynleg til þess að minnka hugsanlega áhættu er eflaust rétt. Við höfum sagt sem svo að ef einhver vafaatriði eru í þessum efnum þá sé sjálfsagt að minnka þau eftir föngum. Innan samtakanna er einnig litið svo á að öll viðleitni í þessa átt sé til marks um áhuga stjórnvalda og Alþingis á að leggja sitt af mörkum til þess að íslenskur málm- og skipaiðnaður fái ,,sömu möguleika og keppinautar nágrannaþjóðanna til að aðlagast tækniþróun hvers tíma og bæta með því samkeppnisstöðuna,`` eins og segir í niðurlagi umsagnar samtakanna um frumvarpið.``

Virðulegi forseti. Ljóst er að lagasetning þessi er nauðsynleg til að minnka hugsanlega áhættu og taka af allan vafa og þess vegna legg ég til að frv. verði samþykkt.