Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 10. júní 1999, kl. 11:19:39 (45)

1999-06-10 11:19:39# 124. lþ. 2.1 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 124. lþ.

[11:19]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það kom fram hér í umræðum sl. vor af minni hálfu að ég væri ekkert afskaplega hrifinn af því að þurfa að taka þátt í að skipta Reykjavík til helminga. En ég vil taka fram vegna orða hv. þm. að ég tel mig bundinn af því samkomulagi sem þar varð í meginatriðum. Ég get tekið undir það með honum að við eigum að fara yfir það hvernig skiptingin verði sem sársaukaminnst eða eðlilegust. Ég tel að það væri óvarlegt að snúa til baka með það atriði. Ég vek athygli á því sérstaklega í því samhengi að margir þeir sem fundu að þessum breytingum töldu þeim þó til tekna að með þessum hætti yrðu þingmannahóparnir nokkuð jafnstórir, yrði ekki einn yfirburða þinghópur hér, eins og 22 manna þinghópur mundi verða. Menn töldu það þessum tilraunum til tekna, jafnvel þeir þingmenn sem voru ekki hrópandi húrra yfir þessum breytingum.

Því tel ég að maður sé bundinn, kannski ekki formlega en efnislega bundinn af þessu samkomulagi sem þarna var gert. Ég sem þingmaður Reykvíkinga mun auðvitað standa að því.