Ábúðarlög

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 20:06:33 (3826)

2000-02-01 20:06:33# 125. lþ. 53.6 fundur 239. mál: #A ábúðarlög# frv. 21/2000, JB
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[20:06]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á ábúðarlögum, einkum er varðar úttektir á jörðum og þegar leiguliðaskipti verða á jörðum. Ljóst er að gildandi ábúðarlög eru í ýmsu úrelt, t.d. hvað það varðar að hreppstjórar skuli vera úttektarmenn hver í sínum hreppi og í rauninni stýra úttektinni en því miður hefur hreppstjórastarfið víðast hvar verið lagt niður á landinu. Eðlilegt er að gera þurfi breytingar m.a. með tilliti til þess. Ég vil þó leggja áherslu á að það ber að auðvelda leiguliðaskipti á jörðum, þau þurfa að vera eins auðveld, einföld og skýr og kostur er þannig að sem minnst hætta sé á að upp komi ágreiningur. Markmið þessara breytinga stuðla að því. Það tel ég vera ágætt.

Herra forseti. Ég vil gera fyrirspurn til hæstv. ráðherra og hv. landbn. um hvort nauðsynlegt sé að gera úttekt með þessum hætti að skyldu. Það eru fleiri en ríkið sem er skylt að leigja jarðir og leigja jarðir til ábúðar, það eru líka einstaklingar og félagasamtök og fleiri aðilar, allir sem eiga jarðir sem uppfylla skilyrði og kröfur um að skuli vera í ábyrgð þegar þeir leiga þær í ábúð. Það getur verið hið besta samkomulag milli bæði landeiganda og fráfarandi leiguliða um hvernig skuli háttað mati á eignum jarðarinnar og jafnvel til næsta manns. Mér finnst því að það eigi að skoða hvort það eigi að skylda þetta, hvort það eigi ekki bara að vera með þeim hætti að þegar aðilar hafa ekki náð samkomulagi eða óska eftir því að þetta mat fari svona fram þá fari það fram en ekki sé verið að skylda þá aðila sem með sínum góða og gegna hætti geta náð þar fullu samkomulagi og látið það ganga þannig.

Nú er líka aðeins óljóst í framkvæmd á leiguliðaskiptum varðandi þetta mat. Kannski er enginn viðtakandi reiðubúinn til þess að greiða fyrir þau mannvirki eða viðtakandi leiguliði, að vísu er honum heimilt þá að semja við leigusala sinn en það gæti þurft að gera þetta frjálsara þar sem fullt samkomulag er um.

Ég bendi líka á, í framhaldi af því, 6. gr. þar sem kostnaður við úttekt greiðist að jöfnu af landeiganda og fráfarandi ábúanda. Þetta er mjög opið varðandi kostnaðinn. En þarna er það landeigandinn í sjálfu sér sem setur reglurnar í flestum, þó svo að rétturinn sé líka ábúandans, en um getur verið að ræða verulegan kostnað og ég tel að það ætti að skoða hvort ekki væri sett þarna takmörkun á kostnaðinn. Fráfarandi ábúanda getur verið heilmikið mál að greiða háa reikninga fyrir úttekt, jafnvel sem full sátt og samkomulag hefur verið um og jafnvel án úttektar. Ég tel að þetta atriði eigi að skoða.

Að öðru leyti legg ég áherslu á það að ég tel að ríkið eigi að eiga jarðir og vera góður jarðaeigandi og fara vel með eignir sínar og tel mikilvægt að ríkið geri það. Ég er algjörlega andvígur þeirri umræðu að ríkinu beri að losa sig við jarðeignir sínar. Að sjálfsögðu er eðlilegt að leiguliðar sem sitja og búa jarðir eigi greiðan aðgang að því að kaupa sínar jarðir til búskapar en að öðru leyti er það í góðu lagi að ríkið eigi jarðeignir sem það getur varið bæði til einstaklings og almenningsnota þegar svo ber við. Ekki er neinn akkur fyrir ríkið í sjálfu sér að vera að losa sig við jarðeignir akkúrat vegna þess að það sjái ekki neinn tekjumöguleika af þeim í ár.

Varðandi jarðeignir eru þetta auðlindir sem við horfum til, ekki bara til örfárra ára, heldur kannski tuga eða hundrað ára og okkur ber að hugsa þannig. Ég vil ítreka það. Skoðun mín er sú að jarðarafnotum til leiguliða sem sitja og búa jarðir með viðunandi og góðum hætti, það er ekki endilega kappsmál fyrir ríkið að vera að innheimta háa leigu ef búseta er tryggð og vel farið með eignina. Ábúendur á jörðum eru ekki aðeins ábúendur að mannvirkjum, þeir eru líka landverðir, þeir eru verðir þeirra náttúruauðlinda sem ríkið á og þeim er þá falin eins konar landvarsla á og það ber einnig að horfa til þess og sýna því fulla virðingu.

Herra forseti. Ég ítreka að það ætti að skoða hvort ekki megi gefa opna heimild þar sem fullt samkomulag er um þannig að ekki þurfi að hleypa þessu í rándýrar úttektir nema þegar nauðsynlegt er. Ég get svona skotið því að í lokin að ég vona, enda þótt ráðherra hafi gert þetta að fyrsta frv. sínu á þessu ári, að hann telji ekki mikilvægast að fara að skipa úttektarmenn á stöðu bænda í landinu. Það hefði samt verið ágætt að við hefðum hafið árið með einhverju myndarlegra frv. gagnvart bændum og landbúnaðinum.