Lífeyrissjóður sjómanna

Mánudaginn 07. febrúar 2000, kl. 18:48:56 (4088)

2000-02-07 18:48:56# 125. lþ. 57.13 fundur 150. mál: #A lífeyrissjóður sjómanna# (iðgjöld) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 125. lþ.

[18:48]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að lýsa yfir stuðningi við frv. til laga sem hér er til umræðu og er flutt af hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni. Frv. kveður á um að launagreiðendur verði skyldaðir til að hækka framlag sitt í Lífeyrissjóð sjómanna um 1% þannig að þeir greiði 7% á móti 4% framlagi launþegans.

Frv. er lagt fram til að rétta af erfiðan búskap hjá Lífeyrissjóði sjómanna. Heildarstaða sjóðsins er neikvæð upp á rúma 2 milljarða, 2.185 millj. kr. eða um 3,2%. Þessi staða var enn lakari fyrir nokkru síðan en samkvæmt útreikningum Talnakönnunar nam þessi halli eða þessi neikvæða staða 13,6% árið 1998 eða tæpum 10 milljörðum kr.

Eins og hér hefur komið fram hefur staða sjóðsins batnað fyrir tvær sakir. Í fyrsta lagi er ávöxtun á fjármunum sjóðsins miklu betri en hún var áður og hefur stórbatnað á undanförnum árum, var 6,81% árið 1995 svo dæmi sé tekið en er núna komin upp í 12,54% en það mun hún hafa verið á síðasta ári.

Hin ástæða þess að staða sjóðsins hefur batnað er sú skerðing sem ákveðin var samkvæmt lögum og tók gildi 1. júlí 1999. Samkvæmt þeim lögum skyldu lífeyrisréttindin skert um 11,5% en gert er ráð fyrir að skerðingin verði enn meiri eftir 2001 en á miðju ári 2001 mun skerðingin nema 12%.

Það er eðlilegt að ríkið komi einnig að þessu máli. Ástæðan kom fram í málflutningi hv. flm. Guðjóns A. Kristjánssonar og einnig í málflutningi hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar en þeir hafa bent á að ríkið hefur komið að þessum málum áður fyrr. Þannig háttar til að á árinu 1981 var gerður svokallaður félagsmálapakki sem ríkið kom að. Sjómenn afsöluðu sér 2--3% í fiskverði á þeim tíma. Til sögunnar kom svokölluð 60 ára regla sem kvað á um að sjómenn gætu hætt störfum 60 ára að aldri en ríkissjóður ætlaði að koma að fjármögnun þessarar reglu. Það mun ekki hafa verið gert. Ef ríkissjóður hefði gert þetta hefði þurft fjármagn upp á 1,3 milljarða kr. að mati fróðra manna og reiknimeistara og er eðlilegt að það verði skoðað.

Reyndar var það svo að þegar skerðingarlögin voru samþykkt fyrir fáeinum missirum tók hæstv. fjmrh. því vel eða ekki fjarri að þessi mál yrðu alla vega endurskoðuð.

Að lokum vil ég taka undir það sem kom fram í máli flm. frv., hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar og hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar að í ljósi þeirra miklu örorkugreiðslna sem fara út úr þessum sjóði er eðlilegt að um hann gildi aðrar reglur en um aðra sjóði. Það kemur fram í grg. frv. að á undanförnum árum hafi örorkulífeyrir verið nálægt 45% af heildargreiðslum Lífeyrissjóðs sjómanna en þetta hlutfall mun vera um 20--25% í öðrum lífeyrissjóðum. Það er eðlilegt að atvinnurekendur fjármagni þennan kostnað með öðrum hætti en um þennan sjóð einan.

Herra forseti. Ég kem fyrst og fremst upp til að lýsa stuðningi við það frv. sem hér er til umræðu og þær röksemdir sem hér hafa verið reiddar fram vil ég einnig gera að mínum.