Framtíð Rafmagnsveitna ríkisins (Rarik)

Fimmtudaginn 10. febrúar 2000, kl. 15:19:05 (4240)

2000-02-10 15:19:05# 125. lþ. 61.94 fundur 304#B framtíð Rafmagnsveitna ríkisins (Rarik)# (umræður utan dagskrár), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 125. lþ.

[15:19]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Hvaða tíðindi kalla nú á umræðu um framtíð Rariks? Jú, ákvörðun um að athuga hagkvæmni þess að flytja höfuðstöðvarnar til Akureyrar. Það hefur reyndar verið gert áður. Árið 1993 var kannaður möguleiki á að stofna hlutafélag með höfuðstöðvar á Akureyri sem taka mundi við eignum og skuldum Rariks, Rafveitu Akureyrar og eignarhluta Akureyrar í Landsvirkjun.

Sama hugmynd er nú komin aftur á kreik, þó með tillti til þess sem breyst hefur á þessum árum og í ljósi vitneskjunnar um að brátt standa orkufyrirtækin frammi fyrir samkeppni á orkumarkaðnum sem auðvitað mun kalla á enn frekari uppstokkun.

Herra forseti. Auðvitað hlutu Akureyringar að hreyfa þessu máli að nýju. Þeir eru þátttakendur í félagi sem stendur fyrir orkuleit í Þingeyjarsýslu þar sem möguleikar virðast til mikillar orkuvinnslu. Ef nýtt orkufyrirtæki verður stofnað fyrir atbeina Akureyrar munu auðvitað ákveðnir hlutir stokkast upp.

Við horfum reglulega upp á að fyrirtæki sameinist og eitt kaupi annað. Því fylgir gjarnan rask á högum fólks en viðhorfin mótast samt oftast af umburðarlyndi gagnvart þeirri staðreynd að ýmist tækniþróun eða arðsemiskröfur kalli á þessar breytingar. En getur verið að því sé sýnt meira umburðarlyndi ef breytingarnar kalla fólk til Reykjavíkur en ef þær kalla fólk frá Reykjavík? Að mér læðist stundum sá vondi grunur þegar umræða fer fram um breytingar á högum einstakra fyrirtækja.