Tekjustofnar í stað söfnunarkassa

Þriðjudaginn 15. febrúar 2000, kl. 18:12:08 (4389)

2000-02-15 18:12:08# 125. lþ. 63.14 fundur 213. mál: #A tekjustofnar í stað söfnunarkassa# þál., Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 125. lþ.

[18:12]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um tekjustofna í stað söfnunarkassa en meðflm. mínir að þessari þáltill. eru hv. þm. Gísli S. Einarsson, Hjálmar Árnason, Pétur H. Blöndal og Sverrir Hermannsson. Ég vek athygli á því að þetta eru þingmenn úr öllum flokkum sem sæti eiga á Alþingi þannig að hér er um að ræða þverpólitískt mál.

Þáltill. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sem geri tillögur um leiðir til fjáröflunar fyrir Háskóla Íslands, Rauða krossinn, SÁÁ og Slysavarnafélagið Landsbjörg sem komið geti í stað tekna af rekstri söfnunarkassa.``

Samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneyti höfðu rekstraraðilar söfnunarkassa á Íslandi 1.069 millj. kr. í tekjur árið 1998 þegar frá höfðu verið dregnir vinningar og rekstrarkostnaður. Skiptingin var á þá lund, samkvæmt svari ráðuneytisins við spurningu sem ég bar fram í haust, að íslenskir söfnunarkassar hefðu fengið í sinn hlut 834 milljónir en Happdrætti Háskóla Íslands 235 milljónir. Á þeim tíma lágu fyrir upplýsingar fyrir fyrri helming ársins 1999 og nam upphæðin 432 milljónum sem rann til íslenskra söfnunarkassa, 150 milljónir runnu til Happdrættis Háskóla Íslands. Samkvæmt þeim tölum fer þessi upphæð heldur hækkandi á milli áranna 1998 og 1999. Því er ljóst að þeir aðilar sem hér voru nefndir eiga mikið undir tekjum af rekstri söfnunarkassanna.

Flutningsmenn tillögunnar, að undanskildum Hjálmari Árnasyni, eru jafnframt flutningsmenn frv. sem kveða á um bann við rekstri söfnunarkassa. Í greinargerð með þeim kemur fram vilji til að finna fjáröflunarleiðir í stað söfnunarkassa fyrir þær menningar- og þjóðþrifastofnanir sem háðar eru tekjum af kössunum og því er þessi tillaga flutt nú.

[18:15]

Ég vil vekja athygli á því að hún kom fram í þinginu sl. haust á svipuðum tíma og fyrrnefnd frv. voru til umfjöllunar og ber að líta á þennan pakka sem eina heild.

Þess má einnig geta að við þessum frv. um bann við spilakössum hafa orðið mjög mikil viðbrögð. Bæði hafa verið talsverð blaðaskrif og umfjöllun í fjölmiðlum og margir aðilar sem hlut eiga að máli hafa haft samband við flutningsmenn og lýst yfir stuðningi við frv. þótt vissulega hafi einnig komið fram gagnrýni á þau.

Viðbrögðin hafa einkum komið úr tveimur áttum og skal engan undra að þau skuli hafa komið frá þeim sem eiga hagsmuni sína undir slíkum kössum, en það má með nokkrum sanni segja að tveir aðilar hafi ánetjast spilakössunum, þeir sem haldnir eru spilafíkn og hinir sem háðir eru þeim sem tekjustofni. Varðandi fyrri hópinn hefur komið fram í upplýsingum frá SÁÁ, en þar hafa menn kynnt sér þessi mál náið, að hlutfall þeirra sem ánetjast hafa spilafíkn á Íslandi er orðið svipað og gerist með þjóðum þar sem spilavíti eru við lýði, enda ber náttúrlega að líta á þessa kassa, einkum þá sem eru samtengdir, sem spilavíti. Þetta er uppistaðan í spilavítunum í Las Vegas svo dæmi sé tekið eða öðrum stöðum þar sem spilavíti er að finna.

Samkvæmt upplýsingum SÁÁ voru 184 einstaklingar í meðferð á Vogi árið 1998 haldnir sjúklegri spilafíkn, þar af voru 74 undir 25 ára aldri. Þetta er umhugsunarvert og staðfest af hálfu lækna á Vogi að slík fíkn virðist fara vaxandi með ungu fólki. Margir sem hafa haft samband við mig voru aðstandendur fólks sem ánetjast hefur spilafíkninni og þeir aðilar hafa viljað vekja á þessu sérstaka athygli.

Hörmulegar afleiðingar spilafíknarinnar ætla ég ekki að orðlengja um hér. Ég hef gert það áður í framsöguræðum sem ég flutti með fyrrnefndum lagafrv. en legg hins vegar á það áherslu nú að þeim aðilum sem koma til með að verða fyrir tekjumissi ef þessi frv. ná fram að ganga verði bættur skaðinn. Ég verð þó að segja það, herra forseti, að ég tel mjög mikilvægt að þetta gerist samhliða en mér finnst það ekki vera forsenda fyrir að bannaðir verði spilakassar og spilavíti á Íslandi að slíkir tekjustofnar verði fundnir áður. Ég legg hins vegar áherslu á að mér finnst mjög mikilvægt að reynt verði að gera þetta samhliða, finna þessum menningarstofnunum og þjóðþrifafyrirtækjum tekjustofna þegar þau verða af gróðanum af spilavítunum.