Vörugjald af ökutækjum

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000, kl. 13:03:23 (4832)

2000-02-24 13:03:23# 125. lþ. 71.6 fundur 385. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (metangas- eða rafmagnsbílar) frv. 38/2000, KF
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 125. lþ.

[13:03]

Katrín Fjeldsted:

Hæstv. forseti. Ég stíg í ræðustólinn til að fagna þessu frv. Með því er reyndar stigið lítið skref segja sumir en það er afar mikilvægt að mínu mati.

Ég sat í haust ráðstefnu um íslenskt vistvænt eldsneyti á Grand Hótel og þar kom mjög margt áhugavert fram í þessum efnum sem við erum að ræða hér, m.a. um möguleikann á metanólknúnum bíla- og fiskiskipaflota og möguleikanum á því að draga megi úr gróðurhúsalofttegundum hér á landi í 45% af því sem er nú með því að við framleiðum okkar eigið eldsneyti og drögum úr innflutningi.

Á þeirri ráðstefnu talaði m.a. Ögmundur Einarsson, yfirmaður Sorpu, sem vitnað hefur verið til hér. Hann sagði að stjórnunarleg markmið og lagasetning t.d. um mengunarskatta væri forsenda þess að tækniþróunin færi á fullt. Þess vegna er þetta frv. fagnaðarefni því að með því að jafna samkeppnisstöðu bifreiða sem nýta metangas eða rafmagn er komið til móts við þessi sjónarmið og þá er ljóst að tækniþróunin getur farið á fullt. Reyndar má segja að því lengra sem gengið er þeim mun líklegra geti verið að dæmið gangi upp. En ég tel að vel sé farið af stað á þennan hátt.

Hvað varðar koldíoxíð þá er vitað að það er sú gróðurhúsalofttegund sem skiptir mestu máli og með aukinni framleiðslu koldíoxíðs hækkar hitastig á jörðinni og það er okkur öllum áhyggjuefni. CO2 eða koldíoxíð veldur 2/3 af gróðurhúsaáhrifunum eftir því sem talið er og magn þess í andrúmsloftinu er þegar komið yfir hættumörk að mati vísindamanna.

Á Íslandi er meginuppspretta koldíoxíðs að þriðja hluta iðnaður, að þriðja hluta fiskiskip og þriðjungur kemur frá bílaumferð þannig að eftir nokkru er að slægjast við að draga úr framleiðslu á koldíoxíði hér á landi.

Hvað varðar skógrækt og bindingu þá er vitað að viss togstreita er í heiminum um það hvort það þurfi að draga úr losun eða hvort nægi að binda koldíoxíð. Flestir telja að það þurfi að gera hvort tveggja, að draga úr framleiðslu og binda það sem framleitt er.

Herra forseti. Ég fagna fram komnu frv. og gleðst yfir hinum umhverfisvæna fjmrh.