Félagsþjónusta sveitarfélaga

Mánudaginn 13. mars 2000, kl. 17:59:20 (5185)

2000-03-13 17:59:20# 125. lþ. 77.7 fundur 418. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 125. lþ.

[17:59]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst ákaflega mikilvægt, eins og hér liggur fyrir frá hæstv. ráðherra, að með þessu frv. er hvergi verið að draga úr þeirri þjónustu sem fatlaðir hafa fengið hingað til með lögum um málefni fatlaðra. En ég hefði gjarnan viljað fá sömu yfirlýsingu um langveik börn, að með þessu frv. sé tryggt að langveik börn fái sömu þjónustu og fötluð börn hafa fengið með lögunum um málefni fatlaðra, það sé hvergi verið að draga úr því. Hæstv. ráðherra fór aðeins inn í eina grein, sem er 31. gr., um skammtímadvöl. Ég lít svo að það sé á öllum sviðum sem langveik börn eiga að fá sömu þjónustu. Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki sammála þeirri túlkun, sem ég hef sett fram, að með þeirri breytingu sem lögð var til eftir að nefndin sem samdi frv. skilaði af sér og ráðherra tók tillit til athugasemda Sambands sveitarfélaga um sólarhringsstofnanir sé verið að festa þær sólarhringsstofnanir í sessi sem nú eru fyrir. Ég get ekki séð annað.

[18:00]

Ég hefði gjarnan viljað heyra hæstv. ráðherra ræða meira um gjaldskrárnar, þ.e. gjaldskrárákvæði í þessu frv. Ég get ekki séð annað en verið sé að auka gjaldskrárheimildir með þessu frv. Ég minni á að gjaldskrárákvæðum um stuðningsfjölskyldur og skammtímavistun hefur aldrei verið beitt. Það hefur ekki þurft að greiða fyrir þá þjónustu. Það hefur ekki þurft að greiða fyrir frekari liðveislu samkvæmt lögum um málefni fatlaðra og það hefur ekki þurft að greiða fyrir sértæka ferðaþjónustu. Ég sé ekki annað en að verið sé að auka gjaldskrárheimildir varðandi þátttöku fatlaðra í þjónustunni, a.m.k. hefði ég viljað heyra hæstv. ráðherra ræða hvort svo væri. Ég fæ ekki séð annað en svo sé.