2000-03-15 13:42:07# 125. lþ. 79.94 fundur 378#B yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga um hækkun tryggingabóta# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 125. lþ.

[13:42]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Hv. málshefjandi Ögmundur Jónasson hefur sýnt fram á það með opinberum tölum að ríkisstjórnin hefur ekki farið að þeim lögum sem hún setti sjálf um hækkun bóta almannatrygginga, auk þess sem bil milli lægstu launa og bótanna eykst stöðugt. Þetta eru alvarlegar upplýsingar. Í kjarasamningunum er verið að hækka lægstu laun sérstaklega. Lægstu laun verða um 90 þús. á mánuði sem er engin ofrausn. Á sama tíma eru öldruðum og öryrkjum sem búa einir skammtaðir 3/4 af þeirri upphæð, en lífeyrisþega á strípuðum bótum með fjölskyldu er skammtaður rúmur helmingur eða um 47 þús. kr. á mánuði. Þetta er blaut tuska framan í verst settu lífeyrisþegana. Sú upphæð, 47 þúsund, dugar ekki fyrir mánaðarleigu í minnstu íbúð í Reykjavík. Öryrki eða aldraður með 47 þús. kr. getur ekki leyft sér að eiga bíl eða fá sér föt. Hann getur ekki leyft sér neitt. Og ég efast um að það dugi fyrir mat hvað sem öllu kaupmáttartali líður. Skattbreytingarnar koma þessu fólki ekki til góða. Það er með tekjur undir skattleysismörkum. Það er svona sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar deilir góðærinu til landsmanna. Þetta staðfestir enn frekar að undir þessari ríkisstjórn er örorka ávísun á fátækt.

Landsfundur Sjálfstfl. samþykkti afnám tekjutengingar fyrir kosningar. Það hefur ekki einu sinni verið staðið við loforð heilbrrh. um afnám tekjutengingar við tekjur maka. Það væri nær að hæstv. forsrh. notaði orku sína til að standa við samþykktir flokksins og ekki síður landslög. Það verður að taka sérstaklega á framfærslu verst settu lífeyrisþeganna, hækka lægstu bætur sérstaklega, ekki síður en lægstu laun. Hækkun tekjutryggingar er eina leiðin innan núverandi kerfis. Látum þessa misskiptingu ekki viðgangast.