2000-03-15 13:47:47# 125. lþ. 79.94 fundur 378#B yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga um hækkun tryggingabóta# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 125. lþ.

[13:47]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það verður að segjast eins og er að ósvífni hæstv. forsrh. í umræðum um þessi mál ríður ekki við einteyming. Í stað þess að svara spurningum sem hér voru fram bornar um það hvers vegna hlutur öryrkja og ellilífeyrisþega yrði enn á ný skilinn eftir þá sneri hæstv. forsrh. hlutunum þannig við að í raun og veru ættu talsmenn þessara samtaka að krjúpa að fótum ríkisstjórnarinnar og þakka henni fyrir að vera að gera hluti sem hún hefði ekki endilega þurft að gera.

Þá verð ég einnig að segja, herra forseti, að nafngreiningar hæstv. heilbr.- og trmrh. hér á þeim talsmönnum samtaka öryrkja sem hún hefði átt gott samstarf við eru með því ógeðfelldara sem ég heyrt af þessu tagi vegna þess nafns sem þar var sleppt, núverandi formanns Öryrkjabandalagsins. Og ég verð að segja að þessar ógeðfelldu tilraunir hæstvirtra ráðherra, hæstv. forsrh. og hæstv. heilbr.- og trmrh. núna til aftöku á forustumanni í félagasamtökum af þessu tagi eru dapurlegar og segja meira um þessa hæstv. ráðherra en margt annað.

Yfirlýsing hæstv. ríkisstjórnar í tengslum við kjarasamningana er einhver mesta ekki-yfirlýsing lengi hefur komið fram því í henni er ekkert, nákvæmlega ekkert sem ríkisstjórnin er ekki annaðhvort bundin af að lögum eða hefur heitið nú þegar í formi kosningaloforða eða í sínum stjórnarsáttmála. Það er ekkert nýtt í þessari yfirlýsingu.

Þegar litið er á að skattleysismörkin skuli fylgja launaþróun þá er það ekki-yfirlýsing því ef þau gerðu það ekki þá væri verið að þyngja skattbyrðina. Þegar litið er á tekjutengingu barnabóta þá er það sömuleiðis ekki-yfirlýsing því þar er á ferðinni framkvæmd á kosningaloforðum og margendurteknum kosningaloforðum Framsfl. Að greiðslur almannatrygginga hækki í takt við laun er ekki-yfirlýsing því ef þær gerðu það ekki þá væri það lögbrot. Þannig má áfram telja.

Það er í reynd ekkert nýtt jákvætt framlag í þessari yfirlýsingu, ekki eyris virði. Þar af leiðandi er þetta einhver mesta ekki-yfirlýsing sem nokkurn tíma hefur komið fram og alvarlegastur er auðvitað hlutur ellilífeyrisþega og öryrkja í þessu sem enn einu sinni á að skilja eftir.