Úrbætur á aðstöðu öldrunardeildarinnar Ljósheima á Selfossi

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 15:11:30 (5338)

2000-03-15 15:11:30# 125. lþ. 80.5 fundur 409. mál: #A úrbætur á aðstöðu öldrunardeildarinnar Ljósheima á Selfossi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[15:11]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Það var fyrir réttum tveimur árum, 18. febrúar, sem fyrirspurninni var svarað. Þar sagði hæstv. ráðherra í seinni ræðu sinni, með leyfi forseta:

,,Og það er þess vegna sem undirbúningur er þegar hafinn í heilbrrn. varðandi nýframkvæmdir við hjúkrunarheimili á Selfossi.``

Annar hæstv. ráðherra viðhafði þau orð á meðan hann var óbreyttur þingmaður að sum mál færu með hraða snigilsins í gegnum ákveðið ráðuneyti sem hann hefur nú tekið að sér og síðan er þar ástundað spretthlaup. Ég verð að segja að ég veit að það er ekki búið að ráða arkitekt og undirbúningurinn er búinn að standa í tvö ár. Ástandið er alveg rosalegt þarna. Í tvö ár hafa menn verið að reyna að koma þessu í þann farveg að hægt væri að ráða arkitekt og hefja framkvæmdir. Það er ekki búið að því enn. Þetta er ótrúlegt. Ég veit að þarfagreining er nauðsynleg. En það er búið að reka þessa stofnun í mjög langan tíma og þarfirnar hafa verið ljósar í mjög langan tíma og hefði það ekki átt að tefja málið.

Annað, virðulegi forseti, er alveg með ólíkindum. Ráðherrar setja reglur m.a. um dagsektir og um að beita refsiheimildum, að heilbrigðiseftirlitið, byggingarfulltrúi og vinnueftirlitið geti beitt refsiúrræðum ef ekki er farið að settum fyrirmælum um úrbætur þegar þörf er á. Ef hámarksdagsektum hefði verið beitt síðan 1. júní 1998 þá hefði heilbrrh. orðið að greiða á bilinu 800--900 millj. kr. í sektir. Er það þannig að hið opinbera, ríkið þurfi ekki að greiða dagsektir þegar svona er ástatt eða taka tillit til þeirra reglna sem eru undirritaðar af ráðherrum? Við verðum að setja í þetta mun meiri hraða og kraft en verið hefur síðustu tvö ár.