Mannréttindabrot í Tsjetsjeníu

Mánudaginn 20. mars 2000, kl. 15:13:26 (5448)

2000-03-20 15:13:26# 125. lþ. 82.1 fundur 388#B mannréttindabrot í Tsjetsjeníu# (óundirbúin fsp.), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 125. lþ.

[15:13]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Við erum á engan hátt að afsala okkar sjálfstæðum skoðunum í þessu máli þó að við vinnum að þeim á vettvangi Atlantshafsbandalagsins. Ég tel afar mikilvægt að halda samskiptum Atlantshafsbandalagsins og Rússlands gangandi. Ég tók það jafnframt fram að við hefðum rætt þessi mál beint við Rússa og vitnaði þá til nýlegs fundar sem ég átti í Moskvu. En það er alveg ljóst að Rússar hafa jafnframt miklar áhyggjur af framvindu mála og þeir hafa sýnt a.m.k. lit að undanförnu til að hleypa alþjóðasamfélaginu að þessu máli og ég tel útilokað að lausn náist í þessu mikilvæga máli án atbeina alþjóðasamfélagsins.

Hins vegar er alveg ljóst að uppbyggingarstarf og það að koma á friði í þessu hrjáða landi mun taka langan tíma. Þar er mikið starf fyrir höndum og mikilvægt er að vita til þess að áhugi skuli vera á hv. Alþingi fyrir því að við Íslendingar tökum þátt í því uppbyggingarstarfi sem hlýtur að verða þarna fram undan.