Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 22:59:03 (5595)

2000-03-21 22:59:03# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[22:59]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að það hefur engin úrslitaáhrif á för erlendra ferðamanna hvort vegabréfaskoðun er ströng eða ekki. Hins vegar er ég sannfærður um að það hefur áhrif að Ísland er hluti af stærri heild í Evrópu, hluti af hinum stóra markaði þar og þar er greitt fyrir frjálsri för ferðamanna. Það hefur áhrif, ég er sannfærður um það.

Varðandi fjárfestingarnar í Leifsstöð endurtek ég það sem ég hef sagt áður að langstærstur hluti þeirra fjárfestinga er til að lagfæra þar aðstöðuna til móttöku ferðamanna. Það er vegna þess að þar er gríðarlega vaxandi umferð og miklar áætlanir um fjölgun ferðamanna á næstu árum sem betur fer. Viðbótarfjárfestingar vegna Schengen eru ekki nema hluti af þeim ávinningi sem við fáum af auknum ferðamannastraumi á næstu árum en það er ekki vegna vegabréfaskoðunar, það er vegna almennrar kynningar á landinu og markaðsstarfsemi sem sú aukning kemur. En það sakar ekki að vera hluti af Evrópumarkaðnum og för fólks sé sem frjálsust um það svæði.