Kostnaður við fjarkennslu

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 14:41:58 (5637)

2000-03-22 14:41:58# 125. lþ. 85.3 fundur 424. mál: #A kostnaður við fjarkennslu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 125. lþ.

[14:41]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Í 39. gr. laga nr. 80/1996, um framhaldsskóla, er ákvæði þess efnis að í reglugerð skuli settar fram reglur, reiknilíkan, til að reikna út kennslukostnað skóla. Hlutverk reiknilíkansins er að tryggja jafnræði skóla til fjárveitinga í samræmi við stærð, gerð, staðsetningu og samsetningu náms. Líkanið skal tryggja eftir því sem frekast er unnt faglegt starf skóla um leið og það stuðlar aðhaldi í meðferð fjármuna til kennslu og rekstrar. Í gerð líkansins skulu felast möguleikar til að auka eða draga úr stuðningi við tiltekin markmið skólastarfs á samræmdan hátt um leið og hliðstætt verði unnt að taka tillit til sérstakra aðstæðna.

Reiknilíkanið tekur til fjárveitinga til kennslu, kennslutengdra starfa, annarra starfa í skólum og rekstrarþátta sem skólar geta óhindrað fært á milli fjárlagaliða. Forsendur reiknilíkansins eru hinar sömu fyrir alla skóla en greinast í tvennt, annars vegar þær sem hafa sama tölugildi fyrir alla skóla en hins vegar sérstakar forsendur fyrir hvern skóla. Þannig hefur síðustu árin t.d. aukið tillit verið tekið til tekjuþarfar verkmenntaskóla og sérstakra aðstæðna lítilla skóla í dreifbýli.

Í reiknilíkaninu er gert ráð fyrir að kostnaður við kaup á áföngum í fjarkennslu sé greiddur eins og greitt er fyrir aðra kennslu viðkomandi skóla, þ.e. að viðkomandi skóli telji fram áfanga og nemendur sem þreyta próf í fjarkennslu líkt og aðra áfanga við skólann. Einu gildir hvort áfanginn eða námið er í boði í heimaskóla eða ekki.