Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 12:16:22 (5694)

2000-03-23 12:16:22# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[12:16]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sighvati Björgvinssyni fyrir mjög málefnalega ræðu um þetta mál. Ég vil fullvissa hann um að við munum í öllu virða rétt starfsmanna í þessu máli. Við þurfum á þessu fólki að halda, flugstöðin þarf á því fólki að halda sem þar er nú við störf. Það er rétt að geta þess að við áætlum að frá árinu 1999 til ársins 2005 muni starfsfólki fjölga úr 290 í 400. Fyrirtækið sem hér um ræðir er í miklum vexti. Ég tel að þessar breytingar skapi því fólki aukin tækifæri og ekki sé ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu starfsmanna. Við munum að sjálfsögðu upplýsa starfsfólkið um framgöngu þessa máls eftir því sem nýjar upplýsingar koma í ljós.

Að því er samkeppnisumhverfið varðar þá er alveg rétt hjá hv. þm. að huga þarf vel að því, m.a. verður að taka tillit til þess að vöruúrval í Fríhöfninni samrýmist því hvaða aðilar taka á leigu húsnæði í flugstöðinni þannig að ekki sé um tvíverknað að ræða. Forðast ber að óeðlileg samkeppni verði milli Fríhafnarinnar og þeirra leigutaka sem þar starfa. Ég tel að það eigi að fara mjög varlega í þessu máli og í þessum breytingum. Auðvitað getur það komið til greina þegar fram líða stundir að Fríhöfnin sem slík verði jafnframt boðin út og rekin af einkaaðilum. Það er gert á mörgum öðrum flugvöllum allt í kringum okkur. Það er hlutur sem ber að íhuga en um það hafa engar ákvarðanir verið teknar.