Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 17:11:02 (5765)

2000-03-23 17:11:02# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[17:11]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá liggur það fyrir að við hv. þm. erum alveg sammála um að hlutafélagavæðingin er auðvitað ekki forsenda þess að hægt sé að skilja eftir hjá þessu fyrirtæki meiri tekjur til að greiða niður skuldir.

En það sem ég var hins vegar að vekja athygli á og geri enn á ný, svona í tíunda sinn, er einfaldlega það að þessi lagabreyting hér leiðir til þess að meiri tekjur verði eftir og það er út af fyrir sig fín ákvörðun vegna þess að það mun styrkja forsendur rekstrarins á flugstöðinni sem þá verður orðin fyrirtæki.

En auðvitað hefði það getað verið pólitísk ákvörðun á sínum tíma að greiða minna fé til ríkissjóðs og meira fé til að greiða niður skuldir flugstöðvarinnar. Hæstv. núv. utanrrh. beitti sér fyrir því að svo var gert og á mikið hrós skilið fyrir.

Það er svo aftur önnur saga sem við höfum líka verið að ræða í dag og það er að skoðun okkar sem stöndum að þessu frv. er sú að hlutafélagavæðingin er líklegri til þess að gefa þessari stofnun, þessu fyrirtæki meiri viðskiptatækifæri og auka möguleika fyrirtækisins á að auka tekjur sínar, sem er þá bæði eigendunum og öllum þeim sem að því standa til hagsbóta. Með öðrum orðum, tekjuöflunin er líkleg til að vaxa í heild sinni.

Hv. þm. fór aftur yfir þann kostnað sem stofnað var til á sínum tíma þegar flugstöðin var reist. Það er að vísu ekkert nýtt í sögunni að kostnaður verði meiri í stórum framkvæmdum en til var ætlast og búist var við, því miður, það er bara einfaldlega þannig. En stóra málið er að menn taki á málum og borgi niður þær skuldir sem til var stofnað á sínum tíma og er auðvitað ámælisvert að það skyldi ekki hafa verið gert fyrr. En það er fagnaðarefni að hæstv. utanrrh. hafði þetta frumkvæði að málinu.