Lögreglulög

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 17:45:42 (5779)

2000-03-23 17:45:42# 125. lþ. 86.6 fundur 467. mál: #A lögreglulög# (inntaka nema og þjálfun í Lögregluskólanum) frv. 49/2000, dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[17:45]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögreglulögum, nr. 90/1996.

Með frv. eru lagðar til nokkrar breytingar á 38. gr. laganna en það ákvæði fjallar um inntöku nýnema og námstilhögun í Lögregluskóla ríkisins.

Markmiðið með frv. er einkum tvíþætt. Annars vegar að veita valnefnd Lögregluskólans meira svigrúm við ákvörðun um inntöku nema og hins vegar að gera náms- og þjálfunartíma lögreglunema skilvirkari og samfelldari, en það mun leiða til markvissari vinnubragða. Með því móti verður fyrr unnt að fjölga faglærðum lögreglumönnum.

Í a-lið 2. mgr. 38. gr. laganna segir að lögreglumannsefni skuli vera 20 til 35 ára. Í frv. er lagt til að víkja megi frá aldurshámarki laganna við sérstakar aðstæður. Þetta skilyrði laganna hefur í sumum tilvikum reynst of strangt þannig að ekki hefur verið unnt að taka inn nemendur sem hafa ákjósanlega reynslu til að starfa sem lögreglumenn og hafa sinnt afleysingastörfum með góðum árangri um langa hríð.

Einnig er lagt til í frv. að heimilt verði að taka nema inn í Lögregluskólann á grundvelli starfsþjálfunar sem jafna má til tveggja ára almenns framhaldsnáms. Hér er haft í huga að reynsla úr atvinnulífi og af öðrum vettvangi getur verið heppilegur grundvöllur undir störf í lögreglu og því er þessi heimild lögð til. Þó skal það áréttað sérstaklega að starfsþjálfun verður að vera það mikil að henni megi öldungis jafna til tveggja ára framhaldsnáms.

Loks eru lagðar til með frv. breytingar á skipulagi grunnnáms í Lögregluskólanum. Þær breytingar miða m.a. að því að auka vægi starfsþjálfunar í náminu. Er gert ráð fyrir að Lögregluskólinn muni hafa meiri afskipti af nemum en verið hefur á starfsþjálfunartíma námsins. Með bættri þjálfun og samfelldara námi er stefnt að því að auka gæði námsins en breytt fyrirkomulag grunnnáms gerir skólanum einnig kleift að efla enn frekar framhaldsmenntun lögreglumanna.

Herra forseti. Ég hef nú í aðalatriðum rakið efnisatriði frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.