Hlutdeild sjúklinga í lyfjakostnaði

Mánudaginn 03. apríl 2000, kl. 15:31:10 (5805)

2000-04-03 15:31:10# 125. lþ. 87.1 fundur 417#B hlutdeild sjúklinga í lyfjakostnaði# (óundirbúin fsp.), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 125. lþ.

[15:31]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Um áramót var reglum um hlut sjúklinga í lyfjakostnaði breytt. Eftir það er sjúklingum sem þurfa sveppalyf gert að greiða þau að fullu fyrstu tvo mánuðina. Það kostar þá 20 þús. kr. Áður greiddi lífeyrisþegi 1.000 kr. fyrir skammtinn. Sveppasjúkdómar eru algengari hér en annars staðar líklega vegna þess hve sundlaugar eru vinsælar hér og eru sveppasýkingar algengar hjá öldruðum og oft svo slæmar að fólk á mjög erfitt með gang. Þetta er sjúkdómur sem leggst á húð, undir neglur bæði á fótum og höndum. Í verstu tilfellum hefur fólk þurft að fara í hjólastól þegar það er illa haldið af þessum sjúkdómi.

Nú hef ég eftir læknum að ýmsir aldraðir sem taka t.d. nokkuð af öðrum lyfjum og eru með lágan lífeyri, hafi ekki treyst sér til þess að leysa þessi lyf út, hafi ekki efni á þeim. Þetta er smitandi sjúkdómur og því mikilvægt að hann sé læknaður annars halda þeir sem eru haldnir honum áfram að smita.

Nú veit ég að hæstv. heilbrrh. er mjög hlynnt forvörnum og hefur beitt sér fyrir þeim og því spyr ég hæstv. ráðherra hvort hún sé tilbúin að breyta reglunum varðandi sveppalyfin og koma til móts við þá sem þurfa þessi lyf. 20 þús. kr. eru miklir peningar fyrir fólk sem er með undir 50 þús. kr. í framfærslu á mánuði. Samkvæmt upplýsingum sem mér hafa borist frá læknum er þetta verulegt vandamál, þ.e. þessi aukna kostnaðarhlutdeild, og mun koma í bakið á okkur síðar. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hún sé tilbúin að skoða það að breyta reglum hvað varðar þessi lyf sem lenda sérstaklega illa á öldruðum.