Hvíldarheimili fyrir geðsjúk börn

Þriðjudaginn 04. apríl 2000, kl. 16:36:52 (5899)

2000-04-04 16:36:52# 125. lþ. 89.13 fundur 263. mál: #A hvíldarheimili fyrir geðsjúk börn# þál., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 125. lþ.

[16:36]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vitnaði bara orðrétt í orð hv. þm. í lok máls hennar þegar ég tók til máls áðan.

Það snýst ekki um að það þurfi að vera sérstakt hvíldarheimili heldur að þjónustan sé til staðar. Það hefur enginn verið að tala um það, a.m.k. hef ég ekki skilið umræðuna í dag þannig að það verði að vera sérstök stofnun heldur að þjónustan sé til staðar en það er hún ekki í dag. Það er engin slík þjónusta fyrir þennan hóp í dag.

Við getum verið með góð áform og ég vona að áformin séu til staðar, sem mér heyrist á hv. þm., en það þarf að koma þessari þjónustu á, það er aðalatriðið, og það fyrr en síðar. Við erum búin að tala um það á annað ár að slík þörf sé til staðar, en það hefur ekkert gerst.