Þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu

Fimmtudaginn 06. apríl 2000, kl. 19:48:08 (6085)

2000-04-06 19:48:08# 125. lþ. 94.15 fundur 237. mál: #A þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu# (breyting ýmissa laga) frv. 15/2000, KolH
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 125. lþ.

[19:48]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég tel að því fé sem verja á í aðild Íslendinga að Schengen-samkomulaginu væri betur varið í aðra hluti. Ég vil t.d. nefna, eftir umræður sem hafa átt sér stað hér á landi og hér á hinu háa Alþingi um að fátækt íslensku þjóðarinnar fari vaxandi með hverju árinu sem líður, að við höfum ótal verkefni hér innanlands sem skiptir okkur máli að verði leyst.

Við höfum rætt um stöðu sjúklinga, geðsjúkra t.d. Þar er verðugt verkefni sem útheimtir hundruð milljóna ef vel á að standa að verki. Heilbrigðiskerfi okkar er stöðugt á brauðfótum. Þangað vantar fé. Okkur vantar fé í velferðarkerfið okkar. Það eru ótal mál hér innan lands sem þurfa á fjármagni að halda.

Ávinningurinn af þeim milljörðum sem fara í Schengen-aðildina okkar hefur ekki verið tíundaður hér í þingsölum. Herra forseti, það er þyngra en tárum taki að mál af þessu tagi skuli ekki fá meiri umræðu og efnislega umfjöllun hér í þinginu en raun ber vitni. Eini stjórnmálaflokkurinn sem stendur hér í pontu og andæfir eitthvað heitir Vinstri hreyfingin -- grænt framboð. Í salnum sitja núna tveir stjórnarliðar og hlusta á málflutning Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í þessu máli þegar málið er komið til lokaafgreiðslu.

Herra forseti. Ég sé ekki nauðsyni þess og hef ekkert heyrt í málflutningi stjórnarliða hér í þinginu að landamæri Íslendinga þurfi að vera eins og Schengen-samkomulagið gerir ráð fyrir. Ég verð að segja að ég tel hin náttúrulegu landamæri Íslands vera einhver bestu landamæri sem nokkur þjóð getur búið við. Ég sé þess vegna ekki ástæðuna fyrir því að við gerumst hlið í norðvestri fyrir Schengen-svæðið.

Herra forseti. Það væri gaman að spyrja fylgismenn aðildarinnar hvort þeir telji það til farsældar fyrir íslenskt samfélag að landamæri okkar verði flutt suður á Spán t.d., austur fyrir Þýskaland eða suður fyrir Tyrkland ef því er að skipta. Auðvitað á Evrópusambandið eftir að stækka og ytri mörkin eiga eftir að færast enn lengra út. Við vitum að það sem er til innan Schengen-svæðisins í dag kemur til með að verða til á Íslandi eftirlitslaust þegar við erum orðin aðilar. Ég bendi á það sem hefur reyndar verið bent á í þessari umræðu oftar en einu sinni áður, að þau lönd sem nú þegar hafa samþykkt fíkniefni, ákveðna tegund fíkniefna til eigin nota fólks, eru innan Schengen-svæðisins --- ein sex, ef ég man rétt, herra forseti. Það sem má í þeim Schengen-löndum verður eftirlitslaust á Íslandi því að farþegar geta gengið eftirlitslausir án vegabréfs inn í Schengen-ríkið Ísland.

Þannig verð ég enn að segja að rökin sem hér hafa verið tíunduð frá fylgjendum aðildar að Schengen-svæðinu hafa ekki verið nægilega sterk. Ég spyr, herra forseti: Er ekki ljóst að mörg þeirra vandamála sem við reynum að bægja frá okkar landi og þjóðfélagi eru nú þegar til staðar innan Schengen-svæðisins? Þegar við höfum slegið skjaldborg um landið okkar og gert það að inngönguhliði á Schengen-svæðið, erum við ekki þar með komin með vandamál Schengen-svæðisins inn á gafl hjá okkur? Værum við ekki að auðvelda fjölþjóðlegum glæpamönnum að hreyfa sig innan Íslands eins og þeim virðist hafa verið auðveldað að hreyfa sig innan Schengen-svæðisins innan Evrópusambandsins?

Ég vil ítreka hvað gerist ef Íslendingar verða nú aðilar að Evrópusambandinu og tollabandalagið verður lagt niður. Hingað til hefur verið horft til þess að tollabandalagið geri okkur kleift að fylgjast með varningi á þeim nótum sem við teljum nauðsynlegt öryggis okkar vegna. En nú stefnir í það, ef Framsfl. fær að ráða, að Ísland komist með báða fætur inn fyrir aðild að Evrópusambandinu og hvar stöndum við þá?

Nei, herra forseti, ég sakna umræðu hér úr þingsölum. Ég leyfi mér að hvetja til þess að við notum okkar dýrmæta fé til annarra hluta en hér er gert ráð fyrir. Ég hvet til að við notum peninga okkar til að hlúa að því sem við eigum og leysa okkar vandamál í stað þess að kaupa okkur aðild að vandamálum annarra með ófyrirséðum afleiðingum.