Landsvirkjun

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 10:32:03 (6138)

2000-04-07 10:32:03# 125. lþ. 95.23 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, Frsm. meiri hluta HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[10:32]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. meiri hluta iðnn. um frv. til laga um breytingu á lögum um Landsvirkjun.

Hér er, herra forseti, í raun um afskaplega litla lagabreytingu að ræða sem hefur þó fengið töluverða umræðu í nefndinni. Frv. gengur út á að Landsvirkjun fái heimild til að eiga í fjarskiptafyrirtækjum. Að baki þessu frv. býr sú staðreynd að Landsvirkjun hefur á undanförnum árum byggt upp sinn eigin fjarskiptabúnað bæði ljósleiðara, sem mun vera um 150 km langur, örbylgjusambönd og sérbyggðar fjarskiptastöðvar. Allt er þetta vegna þess að Landsvirkjun þarf að hafa öruggan fjarskiptabúnað til að stjórna mannvirkjum sínum og tryggja öryggi í raforkuframleiðslu.

Nú hefur hins vegar komið upp áhugi ýmissa einkafyrirtækja á fjarskiptamarkaði til að fá að nýta þann búnað en Landsvirkjun er samkvæmt gildandi lögum ekki heimilt að fara í slíkt samstarf og þannig er frv. til komið.

Herra forseti. Nefndin hefur fengið fjölmarga gesti á sinn fund og er þeirra getið í nál. á þskj. 727. Til að gera langa sögu stutta þá mælir meiri hluti iðnn. með því að frv. verði samþykkt óbreytt.

Meiri hluti hv. iðnn. mælir með því að Landsvirkjun verði heimilt að eiga aðild að fjarskiptafyrirtækjum. Hins vegar er lögð á það áhersla og kemur fram í nál. að mjög mikilvægt sé að halda hugsanlegum rekstri á fjarskiptafyrirtækjum sem Landsvirkjun kann að eignast hlut í aðskildum frá öðrum rekstri. Í umræðu innan nefndarinnar kom fram eins og tekið er fram í nál. að brýnt sé að fylgjast með þessu, þar er m.a. vísað til Póst- og fjarskiptastofnunar og Samkeppnisstofnunar sem ætlað er að fylgjast með því að rekstri slíks fyrirtækis, sem að nokkru leyti er í opinberri eigu en starfar að mestu leyti á öðru sviði, sé ekki blandað saman. Á það var lögð þung áhersla í umræðum nefndarmanna eins og jafnframt kemur fram í nál.

Ég held ég þurfi í raun ekki að fjölyrða mikið um þetta. Ég vil þó, herra forseti, segja rétt í lokin að lengi má deila um hvort og þá í hvaða mæli opinber fyrirtæki eigi að taka þátt í slíkum rekstri. Það var hins vegar álit hv. nefndarmanna í meiri hluta iðnn. að skynsamlegt væri að nýta þann búnað sem ég gat um hér áðan þannig að einkafyrirtæki geti fengið aðgang að honum. Meiri hlutinn telur að það mundi styrkja fjarskiptakerfið í landinu neytendum til hagsbóta. Það var okkar skoðun. Hins vegar er það ekki hlutverk löggjafans að ákveða hve langt einstakar stofnanir ganga í ákvörðunum sínum, til þess eru kjörnar þar til bærar stjórnir. Hlutverk þeirra stjórna er að ákvarða hversu langt einstakar stofnanir ganga á hverju sviði fyrir sig, það er ekki hlutverk löggjafans. Til þess eru kjörnar stjórnir í þessar stofnanir. Þannig er það eðlilegt að stjórn Landsvirkjunar taki ákvörðun um hvort og þá í hvaða mæli Landsvirkjun haslar sér völl á fjarskiptamarkaðnum.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem nefndarmönnum bárust er orðið mjög algengt erlendis að orkufyrirtæki hasli sér völl á fjarskiptamarkaðnum, m.a. af sömu ástæðum og hér hefur verið lýst, þ.e. að orkufyrirtækin komi sér upp ljósleiðara, örbylgjusamböndum og öðrum þeim búnaði sem þarf til að hafa örugg fjarskipti á milli þeirra mannvirkja sem orkufyrirtækin eiga. Sama þróun á sér stað hér og nægir í því sambandi að vísa til Orkuveitu Reykjavíkur sem er komin á fleygiferð í samkeppni á fjarskiptamarkaði. Út frá því má segja að þar sem Landsvirkjun er í eigu almennings sé ekki óeðlilegt að Landsvirkjun sé gert að að taka þátt í þeirri samkeppni. Ég ítreka að eðlilegt er að ákvörðun um slíkt, hvort og þá í hvaða mæli, sé tekin af stjórn fyrirtækisins. Annars væri stjórn væntanlega óþörf.

Undir nál. meiri hluta iðnn. rita hv. þm. Guðjón Guðmundsson, Drífa Hjartardóttir, Árni Ragnar Árnason og Ísólfur Gylfi Pálmason ásamt þeim sem hér stendur. Árni Steinar Jóhannsson skrifar undir með fyrirvara.