Landsvirkjun

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 11:47:38 (6153)

2000-04-07 11:47:38# 125. lþ. 95.23 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[11:47]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Faðir, fyrirgef þeim því þeir vita ekki hvað þeir gjöra. Þetta kom upp í hugann þegar hv. þm. stóð í ræðustól og fullyrti að meiri hluti iðnn. hefði ekki vitað hvað hann var að gera. Þetta er mjög alvarleg ásökun, a.m.k. fullyrðing.

Í annan stað, forseti, verð ég að leiðrétta misskilning sem kom fram í annars ítarlegu máli hv. þm. Það er einu sinni svo að Landsvirkjun getur ekki leigt öðrum fyrirtækjum aðgang að netinu og dreifingarkerfi sínu að óbreyttum lögum. Það er ákveðinn útgangspunktur í þessu frv. sem fær svo ítalega umræðu. Það er misskilningur ef hv. þm. heldur að svo sé ekki.

Við hv. þm. þurfum að svara því hvort við viljum leyfa Landsvirkjun að fara út í fjarskipti eða hvort við viljum banna það. Eða hvort á að heimila og setja inn einhverjar takmarkanir. En er þá ekki hv. Alþingi farið að ganga inn á verksvið stjórnar Landsvirkjunar?

Hvað varðar öryggisnetið og hvort í þessu öryggiskerfi séu ein eða tvær rásir eða tíðnisvið er rétt að minna á að fulltrúi Póst- og fjarskiptastofnunar fagnaði samkeppni á því sviði. Ég hef ekki faglega þekkingu til að leggja mat á það en fulltrúi Póst- og fjarskiptastofnunar fagnaði samkeppninni.

Herra forseti. Rétt er að taka það líka fram að eftir því sem ég hef verið að skoða fundargerðir frá stjórn Landsvirkjunar þá verður ekki betur séð en að full samstaða sé innan stjórnarinnar, þar á meðal hjá borgarstjóranum í Reykjavík um að fara þessa leið og öll stjórn Landsvirkjunar standi að þessari ákvörðun.