Landsvirkjun

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 11:53:40 (6156)

2000-04-07 11:53:40# 125. lþ. 95.23 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[11:53]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Alþingi á að ákveða hvort það heimilar tvöfalt öryggiskerfi. Það á að setja takmarkanir inn í lögin ef við erum að setja lög í þessa veru, Alþingi á að ákveða það. Við eigum að ákveða það hér. Það er ekki málefni stjórnar Landsvirkjunar. Við getum tekið á öryggismálum landsmanna hér í löggjafarsamkundunni.

Mér finnst ekki við hæfi að verið sé að draga afstöðu stjórnarmanna Landsvirkjunar meira inn í umræðuna en orðið er því að þeir eru ekki til að svara fyrir skoðanir sínar ... (Gripið fram í.) Meira en orðið er, sagði ég, og það er ekki eðlilegt. Mér fannst fyrirspurnir borgarstjórans í Reykjavík lýsa því að þarna voru ákveðnar efasemdir um þetta mál allt saman enda eru þetta mjög gagnrýnar spurningar. Í svörum frá forstjóranum eru atriði sem full ástæða er til að efast um og hafa skoðanir á. En ég vil ekki ætla stjórnarmönnum eitthvað frekar skoðanir en a.m.k. eins og ég sé þessar fyrirspurnir eru greinilega efasemdir frá borgarstjóranum í Reykjavík um að þarna eigi að reka tvö kerfi. Eins og komið hefur fram í umræðunni er Reykjavíkurborg farin að reka tvö TETRA-kerfi með aðild að Landsvirkjun og síðan að Línu.Neti. Það er auðvitað eðlilegt að menn geri athugasemdir við það.