Landsvirkjun

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 12:08:55 (6160)

2000-04-07 12:08:55# 125. lþ. 95.23 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[12:08]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra á eftir að svara okkur því hvort þessi gjörð sé fyrsta skrefið í einkavæðingu fyrirtækisins eða hluta þess. Við stöndum frammi fyrir spurningunni um hvernig fyrirtæki á markaði geti keppt við ríkisrisana. Þess vegna er núna uppi hin áleitna umræða um söluna á Landssímanum. Mörg okkar berjast fyrir því að við sölu á Landssímanum verði fjarskiptanetinu haldið eftir. Með afgreiðslu þessa frv. yrðu örlög okkar kannski þau að með því að fyrirtæki í eigu Landsvirkjunar yrði stofnað um ljósleiðara Landsvirkjunar og Landsvirkjun seldi t.d. það fyrirtæki, þá færi ljósleiðari sem nú er í eigu okkar, þ.e. Landssímans sömuleiðis á markað. Þetta er allt angi af sama stóra málinu.

Auk þess vil ég nefna það sérstaklega að það var ekki sökum tímaskorts sem við Ásta Ragnheiður skiluðum ekki nál. Við gerðum það ekki vegna þess að við féllumst ekki á að taka málið úr nefnd. Við töldum það ekki afgreitt, vildum ekki hafa afskipti af þessu enda átti að taka málið til umræðu strax eftir þá helgi. Við vorum að lýsa andstöðu okkar með þessu, tókum ekki efnislega afstöðu heldur gagnrýndum fráleit vinnubrögð.

Þetta höfum við tilkynnt þingflokki okkar. Við eigum þar með eftir að ákveða hvort við tökum að einhverju leyti afstöðu til einstakra þátta málsins eða hvort við látum það algjörlega fram hjá okkur fara.

Þetta vil ég draga sérstaklega fram. Ég held að það væri flestum til sóma að taka málið til formlegrar umfjöllunar milli 2. og 3. umr. og fagna þeirri hugmynd.