Landsvirkjun

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 12:10:53 (6161)

2000-04-07 12:10:53# 125. lþ. 95.23 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[12:10]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þessi síðustu orð hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur. Ætli það séu ekki þessi mál í heild sinni sem þarf að taka fyrir. Hv. þm. minntist á, varðandi sölu á símanum, að halda flutningskerfinu eftir sem sérfyrirtæki. Í raun erum við, varðandi Landsvirkjun, að tala um mjög áþekkt form á sérfyrirtæki.

Mín hugsun og félaga minna er ávallt sú að Landsvirkjun eigi að vera í opinberri eigu en auðvitað ráðum við því ekki. Við viljum að þetta form sé á hlutunum. Við erum talsmenn þess að ríkið eigi símann en auðvitað ráðum við því ekki. Við þurfum að skoða hlutina í þessu ljósi eins og aðrir. Eins og alþjóð er kunnugt þá höfum við ekki meiri hluta á hinu háa Alþingi. Þannig standa málin.

Ég vil standa að þessum málum af fullu raunsæi og ítreka þá áskorun til hv. formanns iðnn., Hjálmars Árnasonar, að hann beiti sér fyrir því að málið verði tekið inn í nefndina og skoðað að nýju. Þá væru öll gögn lögð á borðið til umfjöllunar og e.t.v. fleiri fengnir á fund nefndarinnar í ljósi þess að enn eru að berast gögn sem beðið var um af hálfu nefndarinnar.

Þannig standa þessi mál og ég held að við hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir séum algjörlega sammála um hvernig framhaldið í umfjöllun um þetta mál ætti að vera.