Eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 17:05:05 (6231)

2000-04-07 17:05:05# 125. lþ. 95.25 fundur 524. mál: #A eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins# (gjaldtökuheimild o.fl.) frv. 101/2000, PHB
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[17:05]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum frv. til laga um breytingu á lögum um eignarrétt íslenska ríkisins á auðlindum hafsbotnsins. Þetta er í samræmi við þau lög sem við höfum samþykkt um þjóðlendur þar sem ríkið sló eign sinni á 40% af öllu flatarmáli Íslands. Hér er gengið enn lengra á þeirri braut ríkisvæðingar því að tilgangur þessa frv. er að taka af öll tvímæli um að iðnrh. sé heimilt að ákvarða og semja um endurgjald fyrir töku og nýtingu ólífrænna og lífrænna auðlinda hafsbotnsins. Þetta er sem sé ríkisvæðing og menn sem hafa svipaða heimssýn og ég eru ekkert voðalega ánægðir með þessa þróun. Hins vegar sá ég ákveðin vandkvæði í því að þetta land, hálendið, var án eigenda, var almenningur. Það var hætta á að menn hreinlega slægju á það eign sinni, mundu nema land eins og var farið að gerast með ferðafélög og fleiri.

Sama hætta er með þessar auðlindir. Þess vegna tel ég það vera ákveðna neyðarlausn að fela ríkinu þessar eignir. En ég hlýt að benda á athugasemd með frv. sem hljómar svo, með leyfi herra forseta:

,,Hlýtur það að teljast eðlilegt að ríkisvaldið krefjist gjalds fyrir nýtingu þessara sameiginlegu auðlinda þjóðarinnar.``

Þarna er aftur verið að slengja saman hugtökunum ríki og þjóð, einstaklingum og ríkisvaldi sem ég hef margoft bent á að er alls ekki sama fyrirbærið. Meira að segja er ríkisvaldið oft og tíðum andstæðingur einstaklingsins, t.d. þegar um skattgreiðslur er að ræða og skattaáþján. Ég geri því mikinn mun á ríki og þjóð. En auðvitað er þetta auðlind sem þjóðin ætti að eiga og fyrst ekki finnst önnur leið er kannski best að ríkið komi fram fyrir hönd einstaklinganna en með þeim fyrirvara að það er ekki það sama.

Hæstv. iðnrh. sagði litlar rannsóknir hafa átt sér stað á hafsbotninum og það er alveg rétt. Af hverju eru litlar rannsóknir þarna? Vegna þess að enginn hefur hag af því. Það er enginn sem á þetta. Það er enginn sem getur fengið eitthvað út úr því að rannsaka. Það kostar mikið að rannsaka og menn sjá ekki hag í því að henda út einhverjum hundruðum eða þúsundum milljóna og það sé svo undir hælinn lagt hvort þeir fá einhvern arð af því. Það er vandkvæðið þegar land er í eigu einskis. Ég sé í sjálfu sér ekki að það breytist mikið þó að ríkisvaldið slái eign sinni á hafsbotninn, vegna þess að ríkisvaldið hefur ekki sama arðsemissjónarmið og einstaklingar og það mun ekki dæla peningum í rannsóknir í von um einhvern hugsanlegan hagnað. Hins vegar er möguleiki á því skv. 3. gr. að leigja þetta einstaklingum eða fyrirtækjum þeirra. Það má vel vera að það takist að fá einhverja til að rannsaka jafnvel þó það sé ekki nema tveggja ára nýtingartími sem ég tel vera allt of stuttan. Ég vil að hv. iðnn. skoði, en ég á hlut að henni, að lengja þennan nýtingartíma.

Svo er ég afskaplega óánægður með að þessar tekjur eigi að renna til rannsókna. Það þýðir að stefnumörkunin í frv. er sú að ríkið, sem sumir segja að sé þjóð, eigi aldrei að hafa neinar tekjur af þessu. Þetta eigi aldrei að skila sér í kassann. Það sem kemur inn á að fara í rannsóknir á þessu sama fyrirbæri. Auðvitað vonum við öll að þarna finnist olía eða eitthvað slíkt og þá gerir maður ráð fyrir að tekjurnar verði ansi myndarlegar. Þá þarf aldeilis að fara að rannsaka ef á að eyða öllum peningunum þannig að ég er dálítið á móti þessu ákvæði. Hins vegar veit ég nákvæmlega af hverju það er svona. Það er til þess að þetta sé ekki skattur því að ef þetta fer í rannsóknir aftur má kalla þetta þjónustugjald og þá brýtur það ekki nýsett ákvæði í stjórnarskránni um að ekki megi framselja skattlagningarvald ef hægt er að kalla það þjónustugjald þannig að það er kannski skýringin á bak við það.

Við getum ekki skoðað þetta frv. frekar en hv. þm. Sighvatur Björgvinsson án þess að minnast á veiðileyfagjald og muninn á lifandi og dauðum sjávardýrum. Ég tek undir þau vandkvæði sem hann benti á að þetta leiðir hugann að veiðileyfagjaldi. Sumir segja að það sé eðlilegt að gjaldið af fiskstofnunum eigi að renna til rannsókna en ekkert meira og aðrir segja annað. Þetta er náttúrlega spurning sem stjórnvöld standa frammi fyrir og eru að vinna að til að ná sátt meðal þjóðarinnar um eignarhaldið á kvótanum.

Varðandi það sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði um að ráðherra gæti veitt hverjum sem er leyfi gegn hvaða gjaldi sem er hugsa ég að stjórnsýslulög, svo fremi ég skil þau, muni takmarka eitthvað möguleika ráðherrans í því að mismuna fólki. Stjórnsýslulögin muni hugsanlega tryggja það þurfi að gæta jafnræðis milli borgaranna við úthlutun slíkra veiðileyfa.

Herra forseti. Að endingu vil ég ítreka að við erum að stíga enn eitt skref í átt til ríkisvæðingar sem ætti að vera þeim hvatning sem eru á móti opinberum rekstri og opinberri eign að reyna enn frekar að einkavæða svo að menn hafi rétt aðeins við allri ríkisvæðingunni.