Suðurnesjaskógar

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 18:21:57 (6253)

2000-04-07 18:21:57# 125. lþ. 95.49 fundur 390. mál: #A Suðurnesjaskógar# þál., Flm. KPál (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[18:21]

Flm. (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. um Suðurnesjaskóga, landshlutabundið verkefni um landgræðslu og skógrækt á Suðurnesjum.

Þáltill. hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að beina því til landbúnaðarráðherra að skipa starfshóp til að undirbúa stofnun landshlutabundins verkefnis til landgræðslu og skógræktar á Suðurnesjum.

Starfshópurinn skili tillögum sínum nógu tímanlega til að framkvæmd verkefnisins geti hafist eigi síðar en árið 2001.``

Herra forseti. Landshlutabundin verkefni um landgræðslu og skógrækt sem samþykkt hafa verið hér á hinu háa Alþingi hafa verið sett á fót mjög víða um land og reynst afskaplega vel. Á Suðurnesjum hefur landgræðsla og skógrækt staðið yfir lengi. Upphaflega hófst landgræðsluátak á Reykjanesi árið 1938 með lagningu langrar girðingar sem fyrst og fremst var hugsuð til að stöðva sandfok sem verið hafði viðvarandi á Suðurnesjum árum og árhundruðum saman. Í jarðabók Árna Magnússonar frá 1703 kemur fram að 75% af jörðum á Suðurnesjum hafi legið undir stórskemmdum vegna skemmda af sandfoki og landbroti. Þetta vandamál hefur því verið viðvarandi á þessu svæði í gegnum aldirnar. En með því átaki sem hófst árið 1938 hefur að mestu tekist að hefta sandfok, alla vega nærri byggð. Að því leyti hefur margt tekist vel af hálfu sveitarfélaga og einstaklinga á Suðurnesjum. Það er þó staðreynd að á Suðurnesjum er jarðvegur afskaplega rýr og ræktun og uppgræðsla hefur gengið illa að öðru leyti þó margir fallegir blettir séu að sjálfsögðu á Suðurnesjum sem sýnt hafa og sannað að með samstilltu átaki og fjármagni er hægt að gera kraftaverk á þessu svæði.

Að mínu áliti og meðflutningsmanna minna er sérstaklega tímabært að gera átak á Suðurnesjum eins og annars staðar á þessu sviði. Við þetta verkefni verður þó að beita öðrum aðferðum en við önnur landshlutabundin verkefni vegna þess að á Suðurnesjum er enginn búskapur lengur. Það þýðir í raun að þessi verkefni verða falin skólum, einstaklingum eða jafnvel skógræktarfélögum og félagasamtökum eins og Gróður fyrir fólk og öðrum aðilum sem nálægt þessu geta komið. En slíkt verkefni yrði undirbúið og því stjórnað af sérfræðingum.

Ávinningurinn af landgræðslu á þessu svæði væri að sjálfsögðu sambærilegur við það sem gerist annars staðar. Við mundum stuðla að því að uppfylla að hluta til mikilvægar skuldbindingar sem við komum til með að þurfa að standa við gagnvart Kyoto-samþykktinni, en við höfum u.þ.b. 10--12 ár til að geta uppfyllt þau skilyrði sem við komum til með að undirgangast með henni.

Skógræktarverkefni og landgræðsla eru meðal þeirra aðferða sem sannarlega geta uppfyllt öll þau skilyrði sem við þurfum. Þessi aðferð er mjög auðveld í framkvæmd og margt vinnst á sama tíma, þ.e. bæði að uppfylla skyldur okkar gagnvart andrúmsloftinu og fegra og græða upp umhverfi svæðisins.

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að telja þá upp sem undir þáltill. rita en það eru auk mín hv. þm. Árni Johnsen, Drífa Hjartardóttir, Ísólfur Gylfi Pálmason, Hjálmar Árnason, Sigríður Jóhannesdóttir og Lúðvík Bergvinsson. Við vonumst til að þetta mál fái jákvæða og hraða meðferð hjá nefndum. Ég geri að tillögu minni, hæstv. forseti, að þetta mál verði sent til hæstv. landbn.