Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 14:29:09 (6327)

2000-04-11 14:29:09# 125. lþ. 97.15 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[14:29]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem kemur fram í máli hv. þm. að sá búnaður sem er til umræðu, dreifingarnet Landsvirkjunar, er byggður upp í skjóli einokunar. Það er ákvörðun stjórnar Landsvirkjunar að koma þessum búnaði upp, og rétt að árétta það, til þess að tryggja fjarskipti innan fyrirtækisins og þar með að tryggja í rauninni öryggi í orkumálum landsmanna. En það er rétt hjá hv. þm. að þetta er byggt upp í skjóli einokunar. En frv. gengur einmitt út á það að aflétta þessari einokun, að opna fyrir samkeppni. Til þess þarf að breyta lögunum því að óbreyttum lögum er Landsvirkjun einfaldlega ekki heimilt að selja eða leigja öðrum aðilum inn á þetta dreifingarkerfi. Með frv. er einmitt verið að leggja grunninn að því að aflétta einokuninni hvað þetta varðar og koma á samkeppni enda hefur það komið fram í umsögnum fjarskiptafyrirtækja sem ýmist heimsóttu iðnn. eða sendu skriflega umsögn, að þau mæla eindregið með því að lögunum verði breytt þannig að þau geti komist inn á þennan búnað, nýtt sér aðstöðuna og þar með hafið samkeppni. Þetta er því e.t.v dæmið um það hvernig einokun er að þróast yfir í samkeppni, að vísu á mjög þröngu sviði í starfsemi Landsvirkjunar, en frv. er forsenda þess að slík samkeppni geti átt sér stað á fjarskiptamarkaðnum.