Atvinnuréttindi útlendinga

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 15:19:29 (6342)

2000-04-11 15:19:29# 125. lþ. 97.17 fundur 261. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (undanþágur) frv. 41/2000, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[15:19]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég get sannarlega sagt að ég deili áhyggjum hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar af eftirlitsþættinum og því hvernig okkur tekst að sinna því eftirliti sem við teljum okkur þó hafa hér þegar útlendingar koma til landsins. Þessar vísbendingar um fölsuðu vegabréfin, herra forseti, eru fleiri en ein og fleiri en tvær. Þær eru harla ágengar.

Það eru líka dæmi, herra forseti, um að konur sem koma hingað til landsins til að stunda nektardans þurfi að leita ásjár í Kvennaathvarfinu og fleiri en ein og fleiri en tvær hafa gert það.

Herra forseti. Ég fullyrti hér að konur sem koma til landsins að dansa nektardans fengju ekki þær móttökur hjá félagsmálayfirvöldum sem segja þeim hver þeirra réttur sé í þessu landi. Þeim er ekki gerð grein fyrir því að hér sé kvennaathvarf til staðar. Þeim er ekki gerð grein fyrir því hvernig velferðarkerfi okkar virkar og á að vera til staðar fyrir þær eins og aðra þegna þessa samfélags. Enginn gætir hagsmuna stúlknanna, herra forseti, og það er skylda okkar, ef við ætlum að setja lög sem ná yfir þær stúlkur sem hingað koma á þessum forsendum, að gæta að þessum þáttum líka því að hér eigum við að gæta mannréttinda.

Við erum aðilar að ótal sáttmálum sem banna mansal, banna þrælasölu og vonda meðferð á fólki. Hér eru of margar vísbendingar, herra forseti, til að hægt sé horfa fram hjá þeim. Ég spyr að lokum, herra forseti: Hvers vegna er þetta atvinnugrein sem einungis erlendar stúlkur eru fengnar til? Hvers vegna er ekki uppi sú staða, þar sem nektardansstöðum hefur fjölgað svona mikið, að íslenskar stúlkur gangi í þessi störf? Svari nú hver hv. þm. með sjálfum sér þeim spurningum, herra forseti.