Atvinnuréttindi útlendinga

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 15:35:51 (6346)

2000-04-11 15:35:51# 125. lþ. 97.17 fundur 261. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (undanþágur) frv. 41/2000, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[15:35]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þm. sem ekki eigum sæti í nefndinni hljótum að lesa nál. til að reyna að glöggva okkur á því í hverju brtt. felast, á hverju er tekið og hvernig og hvort gengið er nógu langt eða of skammt að okkar mati og bera fram spurningar úr ræðustól. Ég verð að segja að ég get tekið undir það með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að nál. er ekki mjög skýrt.

Í nál. hefði t.d. mátt koma fram hvaðan heilbrigðisvottorðið á að koma, hvort það er frá heimalandi viðkomandi sem sækir um atvinnuleyfi eða dvalarleyfi hér, hvort nóg er fyrir atvinnurekanda að sækja um dvalarleyfið, hvort einstaklingur sem kemur til að dansa á nektardansstað þarf að leggja fram heilbrigðisvottorð frá íslenskum heilbrigðisyfirvöldum þegar á staðinn er komið eða hvort nægjanlegt er að senda það á undan frá heimalandi. Ýmis svona vafaatriði koma upp í huga minn við lestur á nál. og þeim brtt. sem hér eru lagðar fram.

Ég skildi hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur þannig að hún væri að velta fyrir sér hvort þarna væru stigin þau skref sem dygðu með þessari löggjöf, sem fjallar sannarlega um atvinnuréttindi útlendinga almennt en breytingin er þó eingöngu til að taka á starfsemi nektarstaða. Það sést á nál. Ég vildi heyra frá hv. þm., formanni félmn., um þessi tvö atriði, þ.e. dvalarleyfið og heilbrigðisvottorðið. Er nóg fyrir atvinnurekandann að sækja um dvalarleyfið? Kemur til greina heilbrigðisvottorð frá viðkomandi landi sem er t.d. utan EES-svæðisins? Einnig vildi ég spyrja: Hvaða tillit hefur verið tekið til þeirra reglna sem Evrópuráðið, bæði mannréttindadeildin og jafnréttisdeildin, hafa lagt til hvað þetta varðar?