Þjóðlendur

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 12:49:15 (6649)

2000-04-26 12:49:15# 125. lþ. 102.16 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, Frsm. ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[12:49]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það er deilt um ákveðin landsvæði hér á Íslandi og inn á það hafa margir hæstaréttardómar komið, til að mynda Landmannaafréttadómarnir, sá fyrri og hinn síðari.

Út á hvað gekk þessi lagasetning með þjóðlendulögunum? Hún gekk út á að skera úr um réttaróvissu um ákveðin landsvæði. Hún gekk ekki út á að taka land af öðrum. Það er alveg hárrétt. En til eru umdeilanleg landsvæði og deilt um hver eigi þau. Því er afskaplega mikilvægt að ríkið bregðist ekki skyldum sínum heldur í þessum efnum. Ríkið bregst skyldum sínum ef það ásælist augljósan eignarrétt manna. Þá væri það að bregðast skyldum sínum. En það er líka að bregðast skyldum sínum ef það sækir ekki rétt til þess lands sem það á eða þess sem vafi leikur á um eignarheimildir. Það er líka að bregðast skyldum sínum ef það sækir ekki réttinn.

Hv. þm. Jón Bjarnason hefur komið inn á hvernig kröfugerð ríkisins er háttað. Ég get alveg tekið undir það að mér finnst körfugerð ríkisins á Suðurlandi mjög umdeilanleg. En það er mín persónulega skoðun. Það er óbyggðanefndar að skera úr um þær kröfur sem koma þar fram og síðan væntanlega dómstólanna þegar þar að kemur.

Kröfugerð ríkisins virðist byggjast á og ég tel að hún eigi að byggja á því að kröfurnar séu samrýmdar dómafordæmum og fræðikenningum sem þekktar eru varðandi eignarhald sem um er að ræða. Kröfugerðin verður að byggjast á dómafordæmum og fræðikenningum um þessi mál.

Herra forseti. Það er líka ljóst að enginn getur afsalað sér meiri rétti en hann hefur. Á mörgum stöðum eru því miður mjög einhlítar landamerkjalýsingar. Þinglýsing er mjög mikilvægt gagn en ef landamerkjalýsingar eru einhlítar þá verður að kanna grundvöllinn að baki mun betur.