Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 15:00:25 (6665)

2000-04-26 15:00:25# 125. lþ. 102.94 fundur 463#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[15:00]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það er gamall siður en ekki mjög góður að endurrita söguna. Ekki er alveg laust við að maður verði var við það í þessum umræðum að þegar kemur að því að fjalla um þennan svokallaða Vatneyrardóm í Hæstarétti, þá sé reynt að gera sem minnst úr áhrifum af niðurstöðu Hæstaréttar. Þó var Hæstiréttur að fjalla um stjórnskipulegar grundvallarspurningar sem hann svaraði mjög afdráttarlaust og skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli fyrir alla umræðu frekar að niðurstaða er fengin um þetta efni. Ekki síst í ljósi þeirrar pólitísku umræðu sem fram fór áður en hæstaréttardómurinn féll en héraðsdómur hafði hins vegar verið kveðinn upp, og menn spyrtu alveg tæpitungulaust saman í þeirri umræðu stjórnskipulegar og pólitískar spurningar sem snertu sjálft fiskveiðistjórnarkerfið.

Þetta er vissulega heilmikil niðurstaða og heilmikil tíðindi sem fengust með ákvörðun og niðurstöðu Hæstaréttar sem skiptir máli og auðveldar okkur vinnuna að öllu leyti. En spurningarnar sem við erum að fást við varðandi fiskveiðistjórnarmálin eru í grundvallaratriðum og eðli sínu pólitískar spurningar og þess vegna hlutum við að gera ráð fyrir því að málið kæmi, hvernig sem það færi í Hæstarétti, fyrst og fremst til kasta okkar hér á Alþingi að gera út um ágreiningsefni sem uppi eru í fiskveiðistjórnarmálum.

Það er líka mjög mikilvægt að niðurstaða er komin í það sem var mikið deiluefni um áramótin 1998 og 1999 um hvernig bæri að túlka þann dóm sem féll á sínum tíma í árslok 1998, og ýmsir töldu að ætti bæði við 5. gr. og 7. gr. fiskveiðistjórnarlaganna, tæki með öðrum orðum bæði til veiðileyfisins og veiðiheimildanna. Fyrir liggur í niðurstöðu hæstaréttardómsins núna að þar eru tekin af öll tvímæli um að hæstaréttardómurinn frá því í desember 1998 tók eingöngu til veiðileyfanna alveg eins og meiri hluti Alþingis hafði komist að niðurstöðu um og hafði unnið út frá þeim sjónarhóli.

Menn hafa líka verið að reka upp stór augu og segja sem svo að það séu mikil tíðindi í þessum hæstaréttardómi að Alþingi hafi fullt leyfi til þess að breyta lögum um stjórn fiskveiða. Það er furðulegt að það hafi ekki öllum verið ljóst vegna þess að við erum að fást við það alla daga á Alþingi að breyta lögum, ekki síst lögum um fiskveiðistjórn sem hafa tekið mörgum breytingum í áranna rás og nú er að störfum eins og margoft hefur komið fram sérstök nefnd, endurskoðunarnefnd, sem er að fara yfir þessi mál og reyna að komast að niðurstöðu sem síðan verður færð inn í sali Alþingis til þess að við getum tekist á um þau atriði, rætt þau og komist að niðurstöðu.

Sama á við um það þegar menn hafa talað um innheimtu og álagningu veiðileyfagjalds eða auðlindaskatts, þar hafa menn líka verið að reyna að gera mikið mál úr þeim orðum hæstaréttardómsins þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Í skjóli valdheimilda sinna getur Alþingi því kveðið nánar á um réttinn til fiskveiða, bundið hann skilyrðum eða innheimt fyrir hann frekara fégjald ...``

Þetta er fullkomlega í samræmi við það sem gat að líta í greinargerð þeirra prófessoranna Þorgeirs Örlygssonar og Sigurðar Líndals í ritgerð sem þeir lögðu fyrir svokallaða auðlindanefnd sem nú er að störfum og er einmitt að fjalla um þessar grundvallarspurningar. Niðurstaða þeirra er mjög ótvíræð. Þeir segja að þeir telji ótvírætt að leggja megi sérstakt veiðigjald á aflaheimildir án þess að til bótaskyldu stofnist. Ég held því að það hefði fáum átt að koma á óvart að þetta yrði niðurstaða Hæstaréttar, ekki síst í ljósi þess að Alþingi sjálft hafði kosið nefnd til að fjalla um spurningarnar um auðlindagjaldið í breiðum skilningi þess hugtaks sem tæki til allra auðlinda í landinu, bæði fiskveiðanna og annarra auðlinda sem við erum að nýta. Það hefði því varla átt að koma mönnum á óvart að þetta yrði niðurstaða Hæstaréttar.

Stóra spurningin er hins vegar pólitísks eðlis og hún er þessi: Teljum við það skynsamlegt til að ná þeim markmiðum sem við viljum reyna að ná með fiskveiðistjórnarlöggjöfinni að setja á auðlindagjald? Er það líklegt til að styrkja byggð? Ég er a.m.k. þeirrar skoðunar að það hljóti að vera eitt af grundvallaratriðunum í fiskveiðilöggjöfinni. Það er að mínu mati eitt stærsta aðfinnsluefnið við núverandi fiskveiðilöggjöf hvernig hún leikur byggðirnar í landinu. Augljóst er að með því að leggja á auðlindagjald til að knýja fram það sem talsmenn auðlindagjaldsins hafa viljað knýja fram þ.e. frekari svokallaða hagræðingu, frekari sameiningar, frekara framsal á varanlegum aflaheimildum, þá mun það leiða til þess að byggðirnar úti um landið veikjast og leiða til þess að um verður að ræða frekari söfnun aflaheimilda á fáar hendur, á færri fyrirtæki. Ég held því að hin pólitísku svör við slíkum pólitískum spurningum um hvort leggja eigi á auðlindagjald hljóti að vera neikvæð vegna þess að þó að menn nái því fram sem margir vilja stefna að, að pína peninga út úr sjávarútveginum, þá mun það leiða til þess að byggðirnar veikjast enn frekar og söfnun aflaheimilda á færri hendur mun ganga hraðar fyrir sig.