Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 15:26:57 (6670)

2000-04-26 15:26:57# 125. lþ. 102.94 fundur 463#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), TIO
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[15:26]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Dóms Hæstaréttar í Vatneyrarmálinu var beðið með nokkurri eftirvæntingu. Það var ekki síst af hálfu talsmanna Samfylkingarinnar sem eftirvæntingin var djúpstæð enda höfðu þeir gefið sér niðurstöðuna fyrir fram. Það vekur nokkra athygli þegar hv. þm. Jóhann Ársælsson spyr sig að því í máli sínu hvort niðurstaða Hæstaréttar hafi yfirleitt breytt nokkrum sköpuðum hlut. Hann kemst að þeirri frómu niðurstöðu að hún hafi ekki breytt nokkrum sköpuðum hlut. Vegna þess að hann er ósáttur við niðurstöðuna telur hann að dómurinn hafi ekki breytt nokkrum sköpuðum hlut.

Dómur Hæstaréttar í Vatneyrarmálinu snerist um það hvort ákvæði stjórnarskrár Íslands um jafnræði og atvinnufrelsi hefðu verið brotin með gildandi ákvæðum laga um úthlutun veiðiheimilda, eins og hér kom reyndar réttilega fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Niðurstaðan í þessu máli, sem Samfylkingin batt miklar vonir við, er mjög skýr. Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu að úthlutun aflaheimilda eftir 7. gr. laga nr. 38/1990 fullnægi jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar og þeim sjónarmiðum um jafnræði sem gæta þarf við takmörkun atvinnufrelsis skv. 1. mgr. 75 gr. þessarar sömu stjórnarskrár.

Það er að sjálfsögðu hlutverk stjórnarskrár lýðveldisins að verja ákveðin grundvallarréttindi. Hluti af þessum réttindum er jafnræðisreglan að sjálfsögðu en til koma margvísleg önnur réttindi eins og eignarréttindi og atvinnuréttindi. Niðurstaðan er hins vegar afar skýr og felur það í sér að kvótakerfið brýtur ekki þessi grundvallarréttindi sem stjórnarskránni er gert að standa vörð um. Svo vilja menn halda því fram að þetta boði engin tíðindi, eftir að hafa gefið sér þá niðurstöðu að kvótakerfið mundi hrynja vegna þess að það stæðist ekki stjórnarskrána. Ég verð að segja að þessi umskipti eru nokkuð spaugileg svo ekki sé meira sagt.

Dómurinn er staðfesting á því að Alþingi hafi stjórnarskrárlegar heimildir til að standa vörð um atvinnubundin réttindi. Slík réttindi eru alls staðar viðurkennd í nágrannalöndum okkar og það ber að sjálfsögðu að taka það sérstaklega fram að Íslendingar styðjast við sambærileg stjórnarskrárákvæði og nágrannaþjóðir okkar, sem líka standa vörð um atvinnutengd réttindi, þar á meðal atvinnutengd réttindi útgerðar. (Gripið fram í.) Þau réttindi eru hér á landi, svipað og í nágrannalöndum okkar, reyndar varin af stjórnarskránni, hv. þm. Jóhann Ársælsson, sem grípur hér fram í fyrir mér, þau eru varin af stjórnarskránni.

[15:30]

Mikilvægi dómsins er ekki síst fólgið í því að hann telur að löggjafinn hafi haft málefnaleg rök fyrir því að taka tillit til hagsmuna þeirra sem lagt höfðu í fjárfestingar í sjávarútvegi þegar takmörkuðum heildarafla var skipt milli skipa í samræmi við veiðireynslu. Niðurstaðan er skýr og afdráttarlaus, ekki síst fyrir þá sem hafa klifað á því að réttindum hafi verið úthlutað fyrir ekki neitt. Slagorðið ,,gjafakvóti`` er gengisfellt með þessum dómi. Þeir hlutu réttindi sem tekið höfðu fjárhagslega áhættu og það í góðri trú. Með þeirri útdeilingu var ekki gengið gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Af því að það kom fram í máli hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur að hún vildi að allir hefðu jöfn tækifæri spyr ég sérstaklega hvort það hafi verið jöfn tækifæri ef þeir sem höfðu hætt fjármunum sínum í útgerð áttu ekki að njóta þeirrar áhættu á nokkurn hátt þegar þessum réttindum var útdeilt. Nei, auðvitað, þeim hefði verið mismunað ef hugmyndir Samfylkingarinnar hefðu náð fram að ganga.

Þannig er nú þetta. Þessi dómur hefur mjög víðtækar afleiðingar og hann skýrir með mjög afgerandi hætti hvers konar réttindi stjórnarskráin ver. Eftir að dómur féll í Hæstarétti í svonefndu Valdimarsmáli hefur verið fullyrt að niðurstaða hans um 5. gr. laga nr. 38/1990 ætti einnig við um 7. gr. sömu laga. Þetta hefur verið meginatriði málflutnings þeirra sem telja að kvótakerfið standist ekki stjórnarskrá lýðveldisins. Þessi málflutningur hefur með dómi Hæstaréttar verið dæmdur marklaus. Það er meginniðurstaða dómsins og að sjálfsögðu það sem taka ber tillit til í umræðunni héðan í frá. Það er eðlilegt að umræðan hjakki ekki í sama farinu heldur taki tillit til niðurstöðu Hæstaréttar.