Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 26. apríl 2000, kl. 15:47:31 (6674)

2000-04-26 15:47:31# 125. lþ. 102.94 fundur 463#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), Flm. SvH
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 125. lþ.

[15:47]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Hverjar voru þær málefnalegu forsendur sem lágu til grundvallar þegar kerfið var sett á árið 1983? Það var aðeins ein forsenda: Fiskvernd. Allt annað sem tínt hefur verið til kom síðar til skjalanna eins og hin umtalaða hagkvæmni, byggðasjónarmið o.s.frv. Það var fiskverndin. Það var þá um nokkurra ára bil að fiskifræðingar höfðu haldið því fram að þorskstofninn á Íslandsmiðum væri í bráðri útrýmingarhættu.

Ég þóttist sjá og við margir saman að þetta væri nokkur smitun frá áfallinu mikla á Rauða torginu þar sem síldarstofninn hvarf nokkrum árum áður. En við stjórnmálamenn vorum auðvitað ekki í neinni stöðu til þess að segja fiskifræðingana fara með staðlausa stafi. Ég vil aðeins leggja áherslu á að ég þekki ekki þá sem hafa andmælt því að við þyrftum að hafa veiðieftirlit og við þyrftum að takmarka sókn í hina ýmsu nytjastofna okkar. Ég þekki engan sem hefur haldið því fram. Kvótasetningin er allt annar hlutur eða kvótaúthlutunin.

Á sínum tíma þegar kvótaúthlutunin var ákveðin með þeim hætti sem þá var gert, miðað við veiðireynslu þriggja ára, var því marglýst yfir í ríkisstjórn sem annars staðar, í þingflokkum og á Alþingi, að þetta væri algjör bráðabirgðaráðstöfun. Menn fundu ekki annað ráð. Að vísu vissi ég ekki þá að þessi ráð öll voru ættuð frá LÍÚ því að allur var málatilbúnaðurinn þaðan runninn.

En þessi lög voru framlengd. Þau voru send inn í þingið á síðustu stundu. Ég minnist þeirrar miklu óánægju sem um þetta ríkti og langvarandi deilna í þingflokkum. En menn réðu ekki gátuna.

En hvenær er það sem kastar tólfunum í þessu máli? Menn virðast alveg horfa fram hjá því. Það er með hinu frjálsa framsali sem á er komið í lögunum frá 1990. Þá kastar tólfunum. Þá fara afleiðingarnar að sýna sig sem við nú stöndum frammi fyrir.

Málefnalegu forsendurnar voru alveg skýrar og sá sem hér stendur sá engin önnur ráð en að fylgja þeim málatilbúnaði. Var hann þó undir mjög þungri sókn af hálfu ýmissa þeirra sem mjög nærri honum stóðu því að hann átti þá sjálfur aðild að útgerð. En hann taldi sér engan veginn fært annað en að fylgja þeirri meginstefnu sem þá var uppi hjá stjórnarflokkunum og skammast sín ekkert fyrir það og telur að það lýsi hvorki óábyrgri afstöðu né skammsýni, eins og þeim málum var háttað þá.

En sá ófarnaður sem við nú stöndum frammi fyrir og braust út, ef ég má orða það svo, með lögunum frá 1990 og hinu frjálsa framsali, er sá höfuðvandi sem við stöndum frammi fyrir.

Varðandi áframhaldandi og viðbótarmálefnaforsendur þá kunna þær að hafa verið til staðar á sínum tíma. En ég sýndi fram á það í framsögu minni áðan að þær hafa allar runnið út í sandinn. Við vitum hvernig byggðasjónarmiðin hafa farið. Við sjáum brottkastið. Við sjáum óhagræðið í öllum áttum. Öllu öðru sem haldið er fram er kostað af þeim sem eru að mylja undir sig þessi auðæfi.

Niðurstöðu Hæstaréttar ber að sjálfsögðu að virða. En í forsendum allra dómenda má lesa að þeir dæma þetta fiskveiðistjórnarkerfi óhafandi til langframa. Meiri hluti staðfestir óumdeilanlega að úthlutun veiðiheimilda myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra manna yfir þeim. Minni hlutinn dæmir þær af eða að þær fáist ekki staðist til frambúðar. Í samræmi við það hlýtur Alþingi að taka sjálfan grundvöll fiskveiðistjórnarinnar, úthlutun kvótans, til endurskoðunar.

Þjóðin hefur að sínu leyti kveðið upp eigin dóm. 75% aðspurðra í skoðanakönnunum sætta sig ekki við þetta kerfi, 3,8% þjóðarinnar eru því mjög fylgjandi.

Vel kann að vera að umboðsmenn sægreifanna í stjórnarflokkunum, herra forseti --- og nú lýk ég máli mínu --- virði þetta álit þjóðarinnar að vettugi (Forseti hringir) og skelli skollaeyrum við réttlæti og sanngirni. En koma tímar og koma ráð.