Fæðingar- og foreldraorlof

Föstudaginn 28. apríl 2000, kl. 14:28:35 (6816)

2000-04-28 14:28:35# 125. lþ. 104.22 fundur 623. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (heildarlög, breyting ýmissa laga) frv. 95/2000, GÖ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 125. lþ.

[14:28]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég fagna sérstaklega því frv. sem hér er til umræðu. Ég vil jafnframt segja að kannski hefur dropinn holað steininn mun hraðar en við héldum. Ég vil minna í leiðinni á mörg önnur frv. sem þingmenn sem eru nú í Samfylkingunni hafa lagt fram á þinginu. Ég minni á mörg frv. Kvennalistans á undanförnum árum og þá sérstaklega það sem viðkemur þeim sjóði sem núna er stofnað til. Vegna þess að sjóðurinn er mjög mikilvægur til þess að jafna stöðu milli hins almenna vinnumarkaðar og ríkisins og hann er líka í rauninni tæki til þess að greiða karlmönnum fæðingarorlof.

Ég vil hins vegar byrja á að gagnrýna þann framgangsmáta sem er á þessu mikilvæga máli. Mér hefur fundist það mikil synd að í rauninni eru allir aðrir í samfélaginu meira eða minna búnir að skoða þetta mál en við fengum því dreift í þinginu í gær. Þetta er mjög mikilvægt mál og mér finnst í rauninni, eins og ég segi, synd að það skuli þurfa að ganga svona hratt. Það gefur nefndinni líka mjög lítið svigrúm til að fara vel yfir málið því að þó að þetta sé gríðarlega gott mál er auðvitað aldrei svo ekki sé eitthvað sem má betur fara. Ég vil að það komi fram hér.

[14:30]

Frv. er auðvitað mjög stórt skref í jafnréttisbaráttunni og sérstaklega á þetta við um þriggja mánaða rétt feðra til fæðingarorlofs og þess að foreldrar geti nú ráðstafað þremur mánuðum að vild. Það er einnig ánægjuefni að samkvæmt þessum hugmyndum mun fólk halda tekjum sínum að mestu meðan á fæðingarorlofi stendur, enda er það forsenda þess að fólk geti almennt nýtt sér þennan rétt.

Margir hafa að undanförnu ritað um hvort fæðingarorlofið sé hagkvæmt fyrir þjóðfélagið. Við í Samfylkingunni teljum auðvitað að svo sé og við höfum líka talið að það sé ekki mikill tími í lífi hvers starfsmanns á 20 ára tímabili á starfsævinni að taka eitt til tvö ár frá fyrir barneignir. Þannig lít ég á það.

Mér finnst mjög mikilvægt að við skoðum frv. vel en það skal játað hér að ekki var hægt að fara algjörlega ofan í saumana á öllu eins og maður hefði gjarnan viljað en við munum gera það í nefndinni og höfum þegar rætt um hvernig við ætlum að taka á málinu. Það er líka mjög mikilvægt að frv. nái fram að ganga og verði samþykkt, það er gríðarlega mikilvægt. Því að hér hefur líka náðst samkomulag milli ríkisstjórnar og vinnumarkaðarins og þetta er ekki bara þeirra mál, þetta er mál okkar allra.

Það sem er mjög mikilvægt að skoða, af því að þetta ber nú að eins og það hefur gert, er hvort ekki þurfi að setja einhver endurskoðunarákvæði í lögin og við munum skoða það í nefndinni og ræða það þar, bæði til að sjá hvernig reynslan verður og hvort um einhver göt geti verið að ræða sem þurfi að laga síðar.

Síðan er spurning um túlkunina á gildistímanum, en talað er um áramótin. Annað atriði sem líka þarf að ræða í nefndinni er hvort kona sem á barn í lok desember gangi inn í þennan sveigjanleika með 18 mánaða fæðingarorlofið. Þetta er hlutur sem við þurfum að ræða og hvernig á að túlka.

Ég vil gjarnan gera hag einstæðra foreldra aðeins að umræðuefni og skoða 8. gr.

Ég fagna sérstaklega þessari úrskurðarnefnd vegna þess að auðvitað eiga eftir að koma upp talsvert af vafamálum, ég efast ekki um það.

Ef við skoðum 8. gr. um forsjárlausa foreldrið þá eru það auðvitað mjög vandmeðfarin mál, við vitum það og ég kalla það gott hvernig náðst hefur að orða það hér en það er spurning hvernig það verður síðan í praxís. Ég vil líka taka undir að mjög mikilvægt er að ef annað foreldri andast áður en barnið nær 18 mánaða aldri, þá yfirfærist rétturinn.

Ég er hins vegar líka með annan hóp í huga sem mér finnst að skoða þurfi sérstaklega en það er t.d. ef af feðrun getur ekki orðið. Aðstæður eru stundum þannig og ég þekki það sem fyrrv. yfirfélagsráðgjafi kvennadeildar þar sem ég sá um feðrunarmál og fæðingarorlofsmál. Ég tek sem dæmi feðrun eftir nauðgun. Hvað með hag þeirra barna og hag þeirra mæðra þar sem ekki er möguleiki á feðrun? Það væri t.d. mál sem úrskurðarnefndin gæti tekið fyrir. En ég held að á einhvern hátt verði að opna fyrir þennan hóp, ég held að við verðum að gera það. Við getum líka séð fyrir okkur þær konur sem eiga börn með erlendum mönnum eða ýmsar þær aðstæður koma upp að ekki er hægt að feðra börnin. Á því þarf að taka og ég er alveg sannfærð um að samstaða er um það. Við verðum að reyna að finna því einhvern farveg.

Þegar verið er að tala um hvort bæta eigi kannski við mánuði hjá einstæðum mæðrum þar sem feður er ekki inni í myndinni og þeir geta á engan hátt nýtt sér þennan rétt, þá er alltaf talað um að hægt sé að misnota kerfið. En það má bara alls ekki verða leiðarljós í því að kerfi séu fundin upp, þau kerfi sem við notumst við, því auðvitað er hægt að misnota öll kerfi. En þá eru rammarnir bara ekki nógu skýrir.

Mig langar til að benda á eitt dæmi um gott mál sem var tekið af og ekkert gert við. Það muna kannski flestir þingmenn eftir því, það var um að tannviðgerðir fyrir ófrískar konur ættu að greiðast af Tryggingastofnun ríkisins. Það var tekið af vegna hættu á misnotkun. Og mig langar að segja þingheimi frá því hvernig sú misnotkun átti að eiga sér stað og dæmi hver fyrir sig.

Hún er þannig: Konur verða ófrískar, drífa sig til tannlæknis, láta laga allt og skella sér svo í fóstureyðingu. Halda menn að þetta sé boðlegt að góð lög séu ekki sett af því að slík misnotkun gæti átt sér stað? Svona var þetta á sínum tíma og ég man mjög vel eftir þeirri umræðu. Við eigum ekki að nota þau rök að ekki sé hægt að gera eitthvað af því að kerfið verði misnotað. Ég vara við því. Við eigum bara að reyna að tryggja að það gerist ekki. Með þeirri úrskurðarnefnd sem hér er um ræðir er nefnilega afskaplega góð trygging og ég er sérstaklega ánægð með hana.

Það sem mér finnst að þurfi einnig að skoða er ákveðið þak. Margir vilja líta á sem svo að greiða eigi bara ótakmarkað út úr þessum sjóði til að tryggja að hinir vellaunuðu karlmenn taki fæðingarorlof sitt. Ég get ekki séð að það geti verið eðlilegt að greiða slíkt úr sameiginlegum sjóðum, t.d. ef fólk er með eina eða eina og hálfa milljón tímabundið í laun í 1--2 ár að þá eigi sjóðurinn að greiða það út í fæðingarorlof. Ég held að við þurfum að skoða hvernig þak er sett á þetta, a.m.k. að fá umræður um að ekki eigi alltaf að nýta efsta þakið í þeim launum sem eru á hverjum tíma. Það má jafnvel hugsa sér einhver meðallaun í atvinnugreininni eða eitthvað slíkt. Þetta finnst mér að eigi einnig að vera til umræðu í nefndinni.

Síðan langar mig aðeins að ræða um námsmennina. Nú eru þeir einir sem verða eftir eins og kallað er í svolítið gömlu kerfi hjá Tryggingastofnun þar sem áfram eru greiddir fæðingardagpeningar og fæðingarstyrkur. Því finnst mér alveg spurning hvort greiðsla úr þessum sjóði eða frá Tryggingastofnun sé í rauninni sú upphæð sem er til framfærslu námsmanna ásamt þeim viðbótum sem námsmaður fær í lán, þ.e. að það sé sú framfærsla sem hann fái. Mér finnst að skoða þurfi hvernig hægt er að meðhöndla þetta með námsmennina út frá því að tryggja þeim í rauninni svipaða framfærslu og þeir hafa ef þeir eru t.d. með börn fyrir.

Herra forseti. Í lokin vil ég segja að ég harma framgangsmátann, ég hefði viljað sjá frv. unnið fyrr, enda mjög gott mál á ferðinni, en fagna að sjálfsögðu þessu mikla framfaraskrefi. Við ætlum að reyna að gefa okkur góðan tíma í nefndinni þó að tíminn sé knappur og sjá til þess að frv. fari áfram.