Skýrsla utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 12:25:03 (6991)

2000-05-08 12:25:03# 125. lþ. 107.1 fundur 614. mál: #A skýrsla utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi# skýrsl, KHG
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 125. lþ.

[12:25]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það er eðlilegt og sjálfsagt að rædd séu ítarlega samskipti Íslands og staða þess í Evrópu. Alla þessa öld meira og minna hefur Evrópa verið helsta viðskiptasvæði Íslendinga og haft mest áhrif á hvernig lífskjör hafa þróast hér innan lands. Það var því ekki að ástæðulausu að snemma var farið að huga að því að gera samninga við Evrópu og mynda samtök, Fríverslunarsamtök Evrópu, EFTA, og samninga sem þau gera við Evrópusambandið.

Í framhaldi af því var gerður annar samningur til að tryggja enn betur stöðu Íslendinga og fjárhagslegan ávinning af viðskiptum við það svæði, sem er samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið.

Ég sé engin teikn á lofti um að viðskipti Íslendinga muni breytast í náinni framtíð frá því sem er í meginatriðum. Evrópa mun verða stærsta viðskiptasvæði okkar og samningar við það svæði um kjör útflutnings okkar mun skipta miklu máli um lífskjör á Íslandi. Þess vegna hljótum við að velta því fyrir okkur hvernig við getum tryggt best hagsmuni okkar og fylgst með þeirri þróun sem er að verða innan Evrópu.

Ég er eindregið á þeirri skoðun að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið tryggi ákaflega vel hagsmuni okkar og hafi stuðlað að því ásamt öðru að lífskjör hér á landi hafa batnað mjög verulega á síðustu árum. Ég teldi það því góðan kost ef við gætum búið við þetta fyrirkomulag áfram en um það vitum við ekki. Við vitum hins vegar að miklar breytingar eru að verða í Evrópu og við vitum að Evrópusambandið er að taka miklum breytingum og við þurfum að meta hvaða áhrif þær breytingar hafa á stöðu okkar. Leiða þær til þess að við teljum nauðsynlegt að breyta samningsstöðu okkar við Evrópusambandið? Kann að vera nauðsynlegt að sækja á um annan samning en samninginn um Evrópska efnahagssvæðið? Þetta vitum við ekki. Það sem ég tel að við vitum er að samningurinn sem við höfum er góður og meðan við getum stuðst við hann er okkur vel borgið. En það er eðlilegt að ræða hlutina á þessu stigi, draga saman upplýsingar um þá valkosti sem eru uppi og hvaða áhrif hver og einn kann að hafa á stöðu okkar Íslendinga.

Ég er ekki stuðningsmaður aðildar að Evrópusambandinu en ég er stuðningsmaður sem mestrar efnahagslegrar velsældar á Íslandi. Ég vil því taka afstöðu til mála eftir því hvaða kostir tryggja stöðu Íslendinga sem best. Það er margt sem þar kemur til álita og þarf að skoða áður en menn geta tekið afstöðu til að lokum.

Við vitum þó, eins og komið hefur hér fram, að Íslendingar munu sem ríki vera greiðendur inn í Evrópusambandið ef til þess kemur að við ætlum að tengja okkur betur eða meira við það en nú er. Við höfum háar þjóðartekjur og miklu hærri en eru í Evrópusambandinu og líklegt er að þær muni þróast þar á þann veg vegna nýrra ríkja að þær muni lækka. Ég sé því ekki fyrir mér annað en að Íslendingar muni verða greiðendur inn í þetta samstarf. Það þarf út af fyrir sig ekkert að vera slæmt að Íslendingar sem rík þjóð leggi eitthvað af mörkum til að fátækari þjóðir komist betur á veg, í mínum huga er það ekki frágangsatriði. Hins vegar þarf að skoða áhrif breytinga á ýmislegt innan lands og ég held að það muni ráða úrslitum um afstöðu þjóðarinnar, hvaða áhrif aðild eða breyttur samningur muni hafa á ýmis mál innan lands.

Þar ber auðvitað hæst sjávarútvegsmálin. Að óbreyttri stefnu Evrópusambandsins mun verða mikil breyting hvað okkur varðar og sjávarútvegur skiptir okkur miklu máli. Hann gefur okkur um 100 milljarða inn í íslenskt þjóðarbú og við getum ekki teflt á tvær hættur með það. Hins vegar er ýmislegt í sjávarútveginum ekki eins æskilegt og vera skyldi og kannski getum við lært af því hvernig Evrópusambandið vinnur úr málum eins og byggðaþróun hjá sér. Við þekkjum innan lands hvernig við förum með ýmis byggðarlög sem verða illa úti þegar kvóti er fluttur þaðan í hagræðingarskyni. Ég verð ekki var við að menn hafi miklar áhyggjur af högum þess fólks sem þar verður illa úti, bæði með því að missa vinnu sína eða eignir þess falla í verði. Það má þó Evrópusambandið eiga að það hefur almennt nokkuð viðamikla stefnumörkun uppi til að bæta hag þess fólks sem svona er ástatt um, eins og víða eru dæmi um t.d. í kolanámuhéruðum þar sem menn hafa þurft að loka námunum.

Við þurfum að tileinka okkur að mínu viti ýmislegt úr því sem við getum notað til að bæta kjör Íslendinga innan lands og sérstaklega á landsbyggðinni. Ég held t.d. að það mundi styrkja mjög sveitarstjórnarstigið ef við fylgdum þeirri stefnu sem Evrópusambandið hefur tekið upp hjá sér og það yrði að mörgu leyti til góðs fyrir landsbyggðina. Það er því ýmislegt í þessum málum sem getur virkað að mínu viti bæði til betri vegar og verri vegar. Þá hluti hljótum við að skoða betur og leggja síðan mat á þegar það liggur fyrir.