Skýrsla utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 12:40:05 (6994)

2000-05-08 12:40:05# 125. lþ. 107.1 fundur 614. mál: #A skýrsla utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi# skýrsl, MF
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 125. lþ.

[12:40]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég tel ástæðu til að þakka hæstv. utanrrh. þá skýrslu sem er til umræðu og vissulega er löngu tímabært að Alþingi taki fyrir stöðu Íslands með Evrópuþjóðunum og þá þróun sem á sér stað í samstarfi þeirra. Við hljótum samt sem áður að líta á þetta sem fyrstu yfirferð yfir skýrsluna. Tíminn sem ætlaður er til umræðna er afar naumur og hefði þurft sama tíma til að fjalla um hvern einstakan kafla. En ég treysti því að skýrslan verði tekin aftur til umræðu strax næsta haust þegar stjórnmálaflokkunum hefur gefist færi á að vinna betur úr henni. Þá skiptir auðvitað máli að hinar EES-þjóðirnar, sem standa utan Evrópusambandsins, eru einnig að meta stöðu sína í Evrópusamstarfinu. Skýrsla Norðmanna kemur út í haust og er afar mikilvægt að við fylgjumst vel með hver verður niðurstaða þeirra.

Skýrslan er góður grunnur til að byggja á þá umræðu sem nauðsynlegt er að fari fram, ekki bara á Alþingi heldur ekki síður úti í þjóðfélaginu og það hlýtur að verða skylda okkar að standa fyrir slíkri umræðu. Ég tel nauðsynlegt að áður en skýrslan er tekin fyrir aftur á næsta þingi fari hún út til umsagnaraðila, fyrirtækja, ýmissa félagasamtaka og til faglegrar umfjöllunar stofnana með sérfræðiþekkingu á hverjum þeim málaflokki sem skýrslan nær til. Það hlýtur að verða verkefni utanrmn. að ganga þannig frá málinu áður en þinginu er frestað.

Flestir eru sammála um að EES-samningurinn hafi löngu sannað gildi sitt og fært okkur ótvíræðar réttarbætur á mörgum sviðum. Staða samningsins er þó erfið í dag og framtíð hans nokkuð óljós. Það kemur skýrt fram í hverjum einsta kafla skýrslunnar eins og reyndar var vitað að með aðild okkar að EES erum við skuldbundin til að lögtaka stóran hluta af reglum Evrópusambandsins en höfum takmarkaða möguleika til að hafa áhrif á ákvarðanatöku og þeir möguleikar gætu farið minnkandi í næstu framtíð. Við hljótum því að hugsa vel um stöðu okkar í hverjum málaflokki fyrir sig og meta á hvern hátt hagsmunum okkar er best borgið í samstarfi við þær þjóðir sem hafa hvað mest áhrif á íslenskt samfélag. Þó að höfuðatvinnugreinar okkar, landbúnaður og sjávarútvegur, skipti miklu máli í umræðunni, og úr því verður ekki dregið, megum við heldur ekki gleyma því að hún spannar nær alla þætti þjóðlífsins og snertir líf hvers einasta einstaklings. Þess vegna þarf umræðan að vera vönduð og málefnaleg. Þess vegna nægir ekki að skauta yfir skýrsluna á örfáum tímum í umræðu.

Flestir kaflar skýrslunnar gefa nokkuð gott yfirlit um stöðu mála en það verður þó ekki sagt um þá alla. Ég ætla að nefna sérstaklega tvo kafla, annan þar sem nokkuð greinargott yfirlit er gefið um stöðuna en hinn þar sem vinnan hefði þurft að verða mun nákvæmari. Kaflinn um umhverfismál er dæmi um hið fyrra. Eins og fram kemur í skýrslunni hefur aðgangur að upplýsingum og þekkingu á umhverfismálfum aukist mikið með aðild að EES-samningnum. Hann hefur án efa flýtt þróun hér á landi á sviði umhverfismála, sérstaklega hvað varðar mengunarvarnir og sorphirðu að ógleymdri löggjöfinni um mat á umhverfisáhrifum. Samningurinn nær hins vegar ekki til náttúruverndar og þar stöndum við verr að vígi en ríkin sem við berum okkur gjarnan saman við. Við höfum ekki unnið jafnskipulega að vernd náttúru og ESB-ríkin gera þó grunnskyldurnar séu þær sömu samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum. Í skýrslunni segir að helsti ávinningurinn með aðild að ESB á sviði umhverfismála yrði þátttaka í stefnumótun í ráðherraráðinu og Evrópuþinginu. Með aðild mundu möguleikar á að hafa áhrif á löggjöf sambandsins aukast og á stefnu ESB í alþjóðlegum umhverfismálum. Það er áreiðanlega rétt en hinu má ekki gleyma að auknar kröfur á sviði náttúruverndarmála mundu áreiðanlega hraða þróun þeirra hér á landi. Við yrðum að taka upp gerðir sambandsins á þessu sviði og hrinda þeim í framkvæmd. ESB-ríkin vinna mjög skipulega að umhverfismálum og hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Þau eru komin mun lengra en við í að framkvæma þær skyldur sem fylgja alþjóðlegum samningun eins og t.d. Ríó-samningnum um líffræðilega fjölbreytni, Bernarsáttmálanum um vernd villtrar náttúru í Evrópu og Dagskrá 21 sem samþykkt var á Ríó-ráðstefnunni. Með aðild að ESB fengum við spark í afturendann og yrðum að taka til hendinni á þessu sviði.

Ég er ekki sammála því sem fram kemur í skýrslunni á bls. 137 að þar sem Ísland tekur upp flestar gerðir á sviði umhverfismála yrðu efnislegar breytingar óverulegar við inngöngu í ESB. Breytingarnar yrðu miklar, ekki aðeins á sviði náttúruverndar heldur yrði að taka fullt tillit til framkvæmdaáætlunar ESB á sviði umhverfismála ,,... sem tekur til allra þátta samfélagsins og er ætlað að stuðla að því að atvinnulífið, ríki, sveitarfélög og einstaklingar lagi athafnir sínar að meginreglum sjálfbærrar þróunar.``

Sambærileg áætlun íslensku ríkisstjórnarinnar stendur framkvæmdaáætlun ESB langt að baki þannig að breytingin yrði ekki óveruleg eins og segir í skýrslunni.

[12:45]

Kafli skýrslunnar um félags- og vinnumál er ekki eins vandaður þrátt fyrir fyrir orð hæstv. félmrh. áðan. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að hluti verkalýðshreyfingarinnar, Alþýðusamband Íslands, hefur á öllum líftíma EES-samningsins tekið mjög virkan þátt í því samstarfi sem um er að ræða og sama má segja um samtök atvinnurekenda hér á landi. Því hefur statt og stöðugt verið haldið fram af talsmönnum ASÍ --- ég minni t.d. á ræðu ýmissa forustumanna eins og forseta ASÍ 1. maí --- að EES-samstarf á þessu sviði hafi skilað íslensku launafólki miklum ávinningi. Enda er það svo að um sum þau málefni sem er að finna í þessum hluta samningsins hafa farið fram hatramar deilur á milli ASÍ annars vegar og stjórnvalda og atvinnurekenda hins vegar.

Þarna má t.d. minna á vinnutímatilskipunina sem á tímabili setti EES-samstarfið í uppnám vegna andstöðu stjórnvalda og atvinnurekenda. Annað dæmi er tilskipun um vinnuvernd fyrir þungaðar konur og konur með börn á brjósti. Ég hygg hins vegar að lausn á þeim ágreiningi sé að finna í nýframlögðu frv. um fæðingar- og foreldraorlof.

Af hálfu ASÍ hefur einnig komið fram óánægja með þennan kafla skýrslunnar þótt þar á bæ hafi verið lýst yfir mikilli ánægju með útkomu skýrslunnar í heild sinni. Í grein í Morgunblaðinu kemur m.a. fram að innan alþjóðanefndar ASÍ hafi það viðhorf verið uppi að endurskrifa þyrfti þennan kafla í skýrslunni vegna staðreyndavillna og ófullnægjandi yfirferðar á málaflokknum. Það er auðvitað mjög meinleg villa í upphafi kaflans um félagsmál að EES-samstarfið fjalli um launamál og samskipti aðila á vinnumarkaði. Ég held að það ætti að vera öllum ljóst að EES-samstarfið hefur ekkert með kjarasamninga og launamál að gera. Samstarfið innan ESB hefur heldur ekkert með kjarasamninga og launamál að gera.

Launamál og samskipti á vinnumarkaði eru alfarið innanríkismál hvers ríkis hvort sem þeim málum er skipað með vinnulöggjöf eða alfarið falin aðilunum sjálfum og það gildir um öll þessi ríki.

Það sem einkennir hins vegar þróunina innan ESB á síðustu árum er að ráðamenn ESB hafa orðið við kröfu aðila vinnumarkaðarins, bætt stöðu þeirra í þessu samstarfi og falið þeim sífellt fleiri verkefni. Þessi þróun hefur verið mjög hröð á síðustu árum og að mörgu leyti ekki náð til EES-samstarfsins. EES-samningurinn byggir á næstnæstsíðustu útgáfu á sáttmála ESB og því er EES-samningurinn langt á eftir hvað varðar stöðu og möguleika aðila vinnumarkaðarins.

Það er ekki mikið fjallað um þessi mál í kaflanum um félagsmál í skýrslu utanrrh. Það er gert í umfjöllun um atvinnumál, en lítið í kaflanum um vinnurétt þar sem aðkoma aðila vinnumarkaðar frá Íslandi hefur verið mjög mikil. Þó að EES-samningurinn sé á eftir í ESB-samstarfinu opnar hann þó íslenskum samtökum á vinnumarkaði möguleika á því að komast að löggjafarstarfinu innan ESB í gegnum aðild sína að evrópskum heildarsamtökum launafólks.

Í skýrslunni segir að fulltrúar íslenskra samtaka hafi í nokkrum tilvikum tekið þátt í réttindasamningum á Evrópuvísu. Þarna er nokkuð dregið úr því sem rétt er, bæði ASÍ og VSÍ hafa tekið þátt í öllum þeim samningum sem gerðir hafa verið á þessum vettvangi til þessa og ég veit að bæði ASÍ og Samtök atvinnulífsins eru að hefja vinnu við enn einn evrópskan réttindasamning sem líklega verður að Evrópulöggjöf innan nokkurra missira.

Reglurnar innan ESB eru þannig að stjórnvöld ESB skuldbinda sig til að koma samningum milli Evrópusamtaka launafólks og atvinnurekenda inn í evrópska löggjöf. Til þessa hafa verið gerðir þrír samningar af þessu tagi sem verða að tilskipunum ESB sem íslensk stjórnvöld eru skuldbundin til að taka í gildi hér á landi. Af þessu má sjá að aðilum vinnumarkaðarins hefur verið falið mikið vald í Evrópusamstarfinu og því er ekki að undra að með þetta starf ríki mikil ánægja meðal þeirra samtaka sem taka þátt í þessu samstarfi.

Þeir samningar sem hafa verið gerðir til þessa hafa fjallað um foreldraorlof, málefni og réttindi hlutastarfsfólks og reglur um tímabundna ráðningarsamninga. Ég hef fengið upplýsingar um það frá ASÍ að í tengslum við alla þessa samninga hafi farið fram kortlagning á stöðu mála og réttindum í þeim löndum sem tóku þátt í þeim. Við höfum ekki alltaf komið glæsilega út í þeim samanburði, t.d. hvað varðar foreldraorlofið, þar vorum við flokkuð með ríkjum sem við erum oft í hópi með, þ.e. Írlandi, Bretlandi og Portúgal. Staða þeirra mála sem þarna er verið að fjalla um er oft fyrir neðan evrópskt meðallag og yfirleitt langt fyrir neðan það sem tíðkast meðal systraþjóða okkar á Norðurlöndunum. Þetta gildir þó ekki um réttindi fólks í hlutastörfum. Þau eru nokkuð góð hér á landi miðað við það sem annars staðar gerist.

Tilgangurinn með þessari samningsgerð og félagsmálastarfinu í ESB er að búa til lágmarksreglur sem gilda fyrir allt svæðið án þess þó að rýra það sem betra er meðal sumra þjóða. Oft og tíðum hafa lágmarksreglur af þessu tagi orðið til þess að bæta kjör og réttindi verulega hér á landi. Í skýrslunni er t.d. fjallað um aðbúnaðarmál og hollustu og öryggi á vinnustöðum. Ekki er að finna neitt mat á því í skýrslunni hvaða þýðingu EES-reglurnar á þessu sviði hafa fyrir íslenskt launafólk.

Af hálfu verkalýðshreyfingarinnar hefur því verið haldið fram að EES-reglur á þessu sviði sem og mörgum öðrum hafi breytt mjög miklu. Niðurstaða skýrslunnar er sú að gildistaka tilskipana á þessu sviði hafi á ýmsan hátt bætt stöðu íslensks launafólks.

Ég sakna þess að ekki er skipulega farið í gegnum þær tilskipanir sem um er að ræða. Það kemur fram að EES-samningnum hafi í upphafi fylgt sjö tilskipanir um vinnurétt. En þær eru ekki taldar upp, aðeins nokkrar nefndar. Ekki er heldur sagt á tæmandi hátt frá því sem komið hefur síðan né heldur því sem er á leiðinni. Ég vil í því sambandi benda á væntanlega tilskipun um skyldu atvinnurekenda til upplýsinga og samráðs gagnvart starfsfólki sínu. Framkvæmdastjórn ESB bað Evrópusamtök aðila vinnumarkaðarins á sínum tíma að reyna að ná samkomulagi um þetta mál. Atvinnurekendur í Evrópu neituðu að ganga til samninga. Niðurstaðan varð sú að framkvæmdastjórn ESB lagði fram tillögu að tilskipun sem margir töldu að gengi lengra í átt til kröfugerðar verkalýðshreyfingarinnar en hún hefði náð fram í samningum við atvinnurekendur. Það er ýmislegt af þessu tagi sem ég sakna úr umfjöllun skýrslunnar.

Ég tel að þessi málaflokkur sé mjög mikilvægur hluti af Evrópusamstarfinu og því sé mikilvægt að gefa sem besta mynd af því sem er að gerast á þessu sviði. Við njótum þess að íslensk samtök á vinnumarkaði hafa tekið mjög virkan þátt í þessum hluta Evrópusamstarfsins og það má heldur ekki gleyma því að þessi samtök virðast komast mun lengra inn í evrópskt lagasetningarvald á sínu sviði en bæði Alþingi og íslensk stjórnvöld ná. Ég tel því mjög mikilvægt að grannt sé hlustað eftir reynslu þessara samtaka og mati þeirra á því hvernig staða mála er og hvernig það samstarf sem þeir taka þátt í hefur þróast. Ráðstefnan sem félmrn. stóð fyrir fyrir stuttu síðan um þessi mál var mjög góð.

Við eigum auðvitað að tína rækilega fram ókosti þessa samstarfs og hafa það alveg á hreinu hvað við getum illa eða ekki sætt okkur við og setja fram kröfur í þeim efnum. En við eigum ekki síður að tíunda þá kosti sem samstarfið gefur. Síðan verður að meta út frá heildarhagsmunum þjóðarinnar hvaða leið verður farin. Gott, öflugt og náið samstarf Evrópuþjóðanna er nauðsynlegt. Fram til þessa hefur verið talið að EES-samningurinn væri fullnægjandi. En er það svo?

Ég er ein af þeim sem draga það stórlega í efa og tel að við eigum að skoða af meiri alvöru en áður kosti þess og galla að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þá skiptir einnig máli hvernig aðrar EES-þjóðir sem standa utan Evrópusambandsins taka á málum á næstu mánuðum og árum í framhaldi af stöðumati þeirra og hvort fleiri þjóðir taka þátt í myntbandalaginu. Við verðum að fylgjast náið með og þá e.t.v. helst með afstöðu Norðmanna. Það skiptir miklu máli hver þróunin verður hjá þeim þó það eigi ekki að ráða för hér á landi.