Skuldastaða heimilanna

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 15:25:41 (7011)

2000-05-08 15:25:41# 125. lþ. 107.94 fundur 489#B skuldastaða heimilanna# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 125. lþ.

[15:25]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ábyrgð ríkisstjórnarinnar í málefnum heimilanna er afskaplega mikil. Ríkisstjórnin hefur ítrekað hvatt til eyðslu í samfélaginu síðustu árin og hefur látið hjá líða að predika nokkurn skapaðan hlut um ráðdeild eða nægjusemi. Hæstv. ríkisstjórn hefur hvatt til græðgi og alið á græðgishvötum fólks og mér finnst það til skammar, herra forseti, að ríkisstjórnin skuli ekki grípa inn í og hvetja til ráðdeildar og nægjusemi frekar en græðgi.

Við skulum athuga það að þó að við fáum hér á hv. Alþingi skýrslur um að auka þurfi sparnað í samfélaginu þá er staðreyndin sú að heimilin eru alls ekki aflögufær. Skuldir heimilanna hafa vaxið í réttu hlutfalli við greiðsluafgang fjárlaga og það ber vott um, herra forseti, að skuldum hins opinbera hafi hreinlega verið velt yfir á fjölskyldurnar í landinu. Það kemur að sjálfsögðu verst niður á þeim sem minnst hafa, á barnmörgum fjölskyldum, öryrkjum og sjúklingum. Þannig eykst ójöfnuðurinn í samfélaginu og sá hópur fólks úti í samfélaginu sem þarf að leita til hjálparstofnana til þess að geta haldið jól og hátíðir og keypt yfirhafnir á börnin sín verður sífellt stærri.

Herra forseti. Góðærið hefur sannarlega tekið stóran sveig fram hjá allt of stórum hluta almennings og það er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Nú er mál að linni og hætt verði að hvetja til eyðslu á þeim nótum sem gert hefur verið og farið að tala á nótum nægjusemi og það á við um ríkisstjórnina. Hún þarf að taka þetta til sín og þarf að skoða sitt tungumál og sínar innstu hvatir er lúta að velferð almennings í landinu.